Auðlegð þúsund ríkustu einstaklinga Bretlands óx um 14% á síðasta ári þrátt fyrir óvissuna sem fylgdi því að Bretar ákváðu með þjóðaratkvæðisgreiðslu í fyrra að ganga úr Evrópusambandinu. Þessu er greint frá á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Samanlagt nema eignir þeirra 658 milljörðum punda eða rúmum 90 þúsund milljörðum íslenskra króna. Efstu tuttugu einstaklingarnir eiga eignir upp á samtals 26 þúsund milljarða króna en um 15 milljarða króna þarf til að komast á listann. Meðal einstaklinga á listanum eru knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic og söngkonan Adele.
Á toppi listans tróna bræðurnir Sri og Gopi Hinduja sem fjárfestu í fasteignum, heilbrigðisfyrirtækjum og olíu. Í íslenskum krónum eru eignir þeirra metnar á rúma 2.200 milljarða.
„Á meðan mörg okkar höfðu áhyggjur af úrslitum þjóðaratkvæðisgreiðslunnar var ríkasta fólkið rólegt og hélt áfram að auka við auð sinn,“ sagði Robert Watts sem tók saman listann. Hann telur að uppsveiflan á breska hlutabréfamarkaðinum sé bak við vöxtinn.