Kosið í Frakklandi

Kjörið stendur á milli Le Pen og Macron.
Kjörið stendur á milli Le Pen og Macron. AFP

Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Frakklandi. Þar fer nú fram seinni umferð frönsku forsetakosninganna, en valið stendur á milli þeirra Emmanuel Macron og Marine Le Pen. 

Kjörstaðirnir voru opnaðir klukkan 8 að staðartíma (kl. 6 að íslenskum) í stærstu þéttbýliskjörnunum og verða opnir til klukkan 19 að staðartíma í kvöld (kl. 17 að íslenskum tíma). Í nokkrum stórborgum verða kjörstaðirnir opnir til klukkan 20 að frönskum tíma. Búist er við að útgönguspá liggi fyrir strax eftir að þeim er lokað, að því er segir á vef BBC. 

Macron og Le Pen komust áfram úr fyrri umferð forsetakosninganna sem fór fram 23. apríl, en frambjóðendurnir voru alls 11.

Óhætt er að segja að sýn Macron og Le Pen á framtíðina sé ólík. Macron, sem er frjálslyndur miðjumaður, styður atvinnulífið og er einnig mikill ESB-sinni. Le Pen er þjóðernissinni sem vill sporna gegn auknu straumi innflytjenda til landsins. Hún vill að Frakkar segi skilið við evruna í Frakklandi og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Frakkar eigi að segja skilið við ESB. 

Flestir telja að Macron muni bera sigur úr býtum. Sérfróðir segja aftur á móti að því fleiri sem mæti ekki á kjörstað, því meiri líkur eigi Le Pen á að fagna sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert