Kjörstöðum í Frakklandi var lokað klukkan sex í kvöld og benda útgönguspár til þess að Emmanuel Macron verði næsti forseti Frakklands og um leið yngsti maðurinn til að gegna því embætti.
Kosningaþátttaka í forsetakosningunum að þessu sinni var heldur dræmari en árið 2012 og um klukkan þrjú í dag höfðu 65,3% kjósenda mætt á kjörstað, sem er 6 prósentustigum minna en síðast. Almennt er kosningaþátttaka góð þegar það kemur að forsetakjöri í Frakklandi, eða um 80%.
Allar skoðanakannanir fyrir síðari umferð kosninganna sýndu Macron hafa umtalsvert forskot á Le Pen, en um 60% sögðust styðja hann en 40% Le Pen. Samkvæmt útgönguspám sem belgíska dagblaðið Le Soir birti fyrr í dag þá halda þær tölur nokkuð vel og sagði belgíska ríkisútvarpið RTBF Macron líklegan til að fá á millli 62-64% atkvæða og yrði hann þar með fyrsti frambjóðandinn sem fengi meira en 60% atkvæða í forsetakosningum í landinu.
Útgönguspá sem AFP birti um leið og kjörstöðum lokaði í kvöld bendir hins vegar til að sigur Macrons kunni að reynast enn meira afgerandi. Segir fréttastofan útgönguspár benda til hann hafi hlotið á milli 65,5 og 66,1% atkvæða, en Le Pen hafi fengið 33.9% og 34.5%.
Miklu magni tölvupósta sem sagðir eru koma frá Macron og starfsfólki framboðs hans var lekið á netið á föstudag og vakti birtingin vangaveltur um það hvort gagnalekinn myndi hafa áhrif á úrslit kosninganna.
Þetta er í fyrsta sinn í sex áratugi þar sem fulltrúar frá hinum hefðbundnu flokkum eru ekki í framboði í forsetakosningunum.
Í nýlegri könnun sögðust 10% svarenda vera óánægð með að þurfa að velja á milli Macron og Le Pen.