Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, er yngstur til þess að gegna því embætti. Hann er einnig sá fyrsti sem ekki kemur úr röðum sósíalista eða repúblikana frá stofnun fimmta lýðveldisins árið 1958. Hugsjónir hans voru aftur á móti ekki á sviði stjórnmála hér áður heldur dreymdi hann um að verða rithöfundur og átti væntanlega ekki von á því að hann myndi enda í Élysée-höll.
Fyrstu tölur benda til þess að hann hafi hlotið yfir 65% atkvæða. Andstæðingur hans, Marine Le Pen, hefur játað sig sigraða.
En hver er Macron?
Gamall skólabróðir hans, Antoine Marguet, minnist Macron sem vel gefins lestrarhests. Macron las klassískar franskar bókmenntir og skrifaði ljóð og sögur strax á unglingsárunum.
„Emmanuel Macron hefur alltaf verið öðruvísi,“ segir Marguet. Þegar aðrir sátu og horfðu á sjónvarpið sat hann og las. „Hann var í rauninni jafningi kennaranna. Gríðarlega vel gefinn og fór lengra, hærra og hraðar en aðrir.“
Ljóst má vera að leiklistarkennarinn hans, Brigitte Trogneux, sá hann á þann hátt. „Hann var öðruvísi en allir aðrir. Hann var ekki unglingur. Hann átti samleið á jafningagrunni með fullorðnum,“ segir hún en síðar varð hún eiginkona hans. Þegar þarna var komið var hann 16 ára og hún fertug gift þriggja barna móðir. Hann fór til Parísar til þess að halda áfram námi þar, þess fullviss að hann myndi ganga í hjónaband með henni síðar.
Þau töluðu saman í síma daglega. Smátt og smátt yfirvann hann allar varnirhennar, eða eins og hún lýsir því sjálf; hann sannaði að þolinmæði þrautir allar vinnur.
Brigitte Trogneux yfirgaf eiginmanninn og hóf ástarsamband við Macron. Þau gengu í hjónaband árið 2007. Síðan þá hafa þau búið í París ásamt börnum hennar þremur. Allt fram að stofnun En Marche! fyrir ári fór lítið fyrir Trogneux en í kosningabaráttunni undanfarna mánuði hefur hún leikið lykilhlutverk í þágu eiginmannsins. Hún segist sjálf vera forseti aðdáendaklúbbs hans og mætir mjög oft með honum á opinberar samkomur.
Þrátt fyrir að hafa ætlað sér að verða rithöfundur útskrifaðist Macron frá Sciences Po-háskólanum í París, sem er afar vinsæll meðal heldra fólks í Frakklandi. Macron lauk þar MA-námi í almannatengslum og árið 2004 lauk hann námi frá École nationale d'administration (ENA), sem er einn virtasti skóli Frakklands. Macron er fjórði franski forsetinn sem lýkur þaðan námi.
Að námi loknu starfaði hann hjá hinu opinbera, meðal annars fjármálaráðuneytinu. Þaðan lá leið hans í fjármálageirann og starfaði hann hjá fjárfestingarbankasviði Rothschild & Cie-bankans til ársins 2012 er hann hóf störf fyrir þá nýkjörinn forseta François Hollande, fyrst sem aðstoðarmaður en síðar sem ráðherra efnahagsmála.
Macron var ákaflega óvinsæll meðal hefðbundinna vinstrimanna enda þóttu skoðanir hans of hallar undir frjálshyggju og taka hagsmuni fyrirtækja fram yfir verkalýðinn. Sjálfur hefur Macron lýst sér sem frjálslyndum félagshyggjumanni og í raun algjörri andstöðu helsta andstæðingsins Marine le Pen, sem aðhylltist þjóðernishugsjónir, er andstæðingur alþjóðavæðingar og andsnúin komu innflytjenda til Frakklands.
Á köldu aprílkvöldi í fyrra komu nokkur hundruð manns saman í bæ skammt fyrir utan París. Flestir voru vinir eða tengdir aðalræðumanni kvöldsins, Emmanuel Macron, fjölskylduböndum.
Einn lýsti því sem að vera viðstaddur brúðkaup, lítill salur, tilfinningar og ræða. En í raun var það miklu frekar fæðing - En Marche! (sem hægt er að þýða sem Hreyfingin!) varð að veruleika.
Ekki höfðu allir fyrrverandi félagar Macron meðal vinstrimanna trú á stjórnmálabrölti hans og töldu flokkinn eiga aðeins eitt fram undan - að leggja upp laupana. Einn af samráðherrum Macron lét tengil á lagið I Walk Alone fylgja frétt um stofnun En Marche! En undanfarna mánuði hefur orðið ljóst að Macron gengur ekki einn og þrátt fyrir vantrú margra á getu hans fyrir ári er nú ljóst að Macron verður forseti Frakklands, 39 ára að aldri.