Tvennt er talið munu verða einkennandi fyrir seinni umferð frönsku forsetakosninganna í dag. Annars vegar dræmari kjörsókn en nokkru sinni í rúma hálfa öld og hins vegar miklu hærra hlutfall auðra atkvæða en áður. Kosningareglurnar eru með þeim hætti að hvort þeirra sem verður ofan á þá þurfa þau Emmanuel Macron eða Marine Le Pen að hljóta fleiri atkvæði en sem nemur samanlögðum atkvæðafjölda mótherjans og auðu atkvæðunum til að ná kjöri sem forseti Frakklands.
Frá því í fyrri umferð kosninganna hafa verið gerðar 18 fylgiskannanir og mældist fylgi við frambjóðendurna tvo hið sama í þeirri fyrstu og þeirri síðustu, eða 62% fyrir Macron og 38% fyrir Le Pen. Um tíma hafði forskot Macron minnkað og var orðið 59% gegn 41% en síðustu daga - þá og sérstaklega eftir sjónvarpskappræður frambjóðendanna tveggja sl. miðvikudagskvöld - hefur bilið breikkað jafnt og þétt aftur í 62:38 %
Líkur á sigri Emmanuels Macron í kosningunum hafa aukist um tvö prósentustig frá því í kapparæðunum. Aðstandendur könnunarfyrirtækja eru á einu máli um að fylgisaukning Macron síðustu daga standi í beinu sambandi við betri frammistöðu hans í kappræðunum harðvítugu. Sýnir könnun Ipsos-greiningarfyrirtækisins, sem birt var í vikunni, að hann hljóti 61,5% atkvæða en Marine Le Pen 38,5%. Óvissan er lítil sem engin því 93% þeirra sem áformuðu að greiða Macron atkvæði sögðust búnir að gera endanlega upp við sig hvernig þau ætluðu að ráðstafa atkvæði sínu. Það hlutfall kjósenda Le Pen mældist aðeins minna, eða 88%. Samkvæmt könnun Ipsos sögðust 76% aðspurðra ætla fara á kjörstað og 24% ætla láta það ógert.
Bilið breikkar milli frambjóðendanna
Í könnun sem Ipsos gerði sl. miðvikudag mældist fylgi Macron 59% og Le Pen 41%. Hefur því dregið í sundur með þeim á ný. Samkvæmt mælingum Ipsos munu 48% kjósenda öfgavinstrimannsins Jean-Luc Melenchon í fyrri umferðinni styðja Macron í dag. Hið sama er að segja um 42% kjósenda Francois Fillon, frambjóðanda Lýðveldisflokksins, og 75% kjósenda Benoit Hamon, frambjóðanda Sósíalistaflokksins.
Í fyrri umferð kosninganna 23. apríl hlaut Macron 24,01% atkvæða, Le Pen 21,3%, Fillon 20,01, Melenchon 19,58 og Hamon 6,36%, en aðrir minna.
Nokkrar kannanir sem birtust síðdegis á föstudag voru á sömu lund. Í könnun Elabe fyrir sjónvarpsstöðina BFM-TV var Macron þó kominn upp í 62% og Le Pen fallin niður í 38% fylgi. Var bilið þar þremur prósentustigum meira en í Elabe-könnun í byrjun vikunnar, fyrir sjónvarpskappræðuna. Mestu munar þar um vaxandi streymi fylgis Melenchon til Macrons síðustu daga, að sögn fulltrúa greiningarfyrirtækisins. Í könnun Oxoda var niðurstaðan að minnst fjórðungur kjósenda myndi sitja heima og að þar yrði að verulegu leyti um að ræða vinstrimenn sem súrir séu yfir því að enginn þeirra frambjóðenda komst í seinni umferðina. Verði það niðurstaðan verður kjörsóknin minni en nokkru sinni í forsetakosningum frá árinu 1965. Þykir þetta og undirstrika vonbrigði kjósenda með þá valkosti sem nú blasa við þeim.
Kosningabaráttunni lauk í fyrrakvöld
Róstusamri kosningabaráttunni lauk á miðnætti í fyrakvöld. Í henni hefur hefðbundnum stjórnmálum verið kollvarpað. Kosningarnar þykja um margt þær mikilvægustu í Frakklandi í áratugi. Í þeim takast á frambjóðendur tveggja andstæðra málefnalegra og pólitískra póla, með gjörólíka sýn á framtíð Evrópusamstarfsins og stöðu Frakklands í alþjóðasamfélaginu. Le Pen myndi loka landamærum Frakklands og losa sig við evruna. Macron, sem aldrei hefur tekið þátt í neins konar kosningum áður, vill nánara Evrópusamstarf og opnara hagkerfi en nú er við lýði í Frakklandi. Um engin málefni eru þau sammála, eins og rækilega kom fram í sjónvarpskappræðunum.
Kosið er við harla óvenjulegar aðstæður og segja álitsgjafar landið klofið í að minnsta kosti tvennt. Í þeim hópi er einn af efnahagsráðgjöfum Emmanuels Macron, Clement Beaune. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Bertelsmann stofnunarinnar í Berlín sem birt var á fimmtudag eru Frakkar klofnir í djúpstæðari og andstæðari pólitískar fylkingar en nokkurt annað Evrópuríki. Hvergi er hlutfall þeirra sem lýsa sér sem harðlínumanni til vinstri eða hægri, hærra, eða 20%. Er það þrisvar sinnum hærra en meðaltalið í ríkjum ESB en þar sögðust einungis 7% að lýsa mætti sér sem harðlínumanni. Í könnuninni sem 11.021 einstaklingur tók þátt lýstu 36% Frakka sér sem miðjumanni, samanborið við 62% annars staðar í ESB.
Örlög ESB og evru í húfi
Örlög bæði Evrópusambandsins (ESB) og evrunnar geta ráðist í kvöld, segir fréttastofa Reuters. Hún segir að markaðir myndu líta á kjör Macron sem svo að dregið hafi úr pólitískri hættu í Evrópu. Sigur Le Pen myndi þvert á móti auka á stjórnmálaóvissuna og hættuna á að Frakkar færu jafnvel úr ESB og vörpuðu evrunni fyrir róða. Vitnað er til þess að hún hafi á endasprettinum dregið úr tali sínu um útgöngu úr ESB, en könnun Reuters í vikunni benti til þess að evran myndi falla strax um ein 5% yrði Le Pen kjörin forseti. Segir í fréttinni að fjármálamarkaðir yrðu eldfimir ef hún nær húsbóndavaldi í Elysee-höllu.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gengur út frá því að Macron verði forseti því hún sagði á föstudag, að yrðu það úrslitin myndu Þjóðverjar og Frakkar leitast í sameiningu við að styrkja ESB og blása í það nýjum krafti. Sagði Merkel að hin aðildarlöndin 27 yrðu að taka ákvarðanir hraðar og ákveðnar þegar sambandið reynir að jafna sig af brottför Breta úr því. „Samstarf Þýskalands og Frakklands mun öðlast afgerandi þýðingu í þessu sambandi fari [frönsku] kosningarnar eins og við æskjum,“ sagði Merkel.
Þrátt fyrir að Macron sé einarður stuðningsmaður Evrópusamstarfsins hefur hann engu að síður í kosningabaráttunni gagnrýnt ESB, sagt stjórnun þess í ólagi og hvatt til djúpstæðra umbóta á sambandinu, sem mótframbjóðandi hans Le Pen hefur viljað kljúfa upp. Spurningin er hvort hinum unga heimsborgara Macron dugi að vinna kosningarnar til að geta reist franskt samfélag við og bjargað frönsku atvinnu- og efnahagslífi? Með umbótum sem fælust í auknu peningalegu aðhaldi, samdrætti opinberra útgjalda, umbótum á vinnumarkaði til að stuðla að auknum sjálfstæðum atvinnurekstri og lækkun atvinnuleysis, og öðrum breytingum á vinnulöggjöfinni til að skapa bæði fyrirtækjum og starfsmönnum aukinn sveigjanleika í rekstri.
Fall stjórnmálastéttarinnar
Annað sem kosninganna verður minnst fyrir er fall stjórnmálastéttarinnar í Frakklandi. Fullnægja þær að því leyti óskum þorra almennings sem orðið hefur afhuga stjórnmálum og ekki síst stjórnmálamönnunum sjálfum á undanförnum árum. Ríkt hefur sú tilfinning meðal fólks að millli kjördaga sé það látið afskiptalaust og einnig kjör þess. Með brottfalli stóru flokkanna í fyrri umferð forsetakjörsins hefur verið rækilega sett ofan í við hina pólitísku elítu. Sumir kenna efnahagsástandinu um uppreisnina gegn ráðandi öflunum. Aðrir vilja skella skuldinni á ESB fyrir að standa álengdar erfiðleikum frönsku þjóðarinnar og sýna almennan vanmátt þegar þarfir þegnanna eru annars vegar. Stjórnmálaelítan franska ber þó ekki síst sökina á þessu sjálf því hún er ein sú dekraðasta og einangraðri frá umheiminum en í nokkru öðru vestrænu ríki. Í kosningabaráttunni segist Marine Le Pen hafa endurspeglað þessa almennu reiði borgaranna í garð stjórnmálamanna of stofnana. Emmanuel Macron segir það fjarri lagi, heldur hafi hún gert sér far um að misnotað sér óánægjuna til að skara eld að sinni pólitísku köku.
Popúlisminn þverr
Margir álíta að með væntanlegum sigri Macron í forsetakosningunum í dag hafi kraumandi bylgja popúlisma, sem virtist breiðast út eftir Brexit og kosningasigur Donalds Trump, brotnað á grynningum sínum, bæði í Frakklandi og á vesturlöndum.
Flest þykir benda til að verulega stór hluti kjósenda Macron í dag fari á kjörstað af skyldurækni fremur en með háleitar vonir í brjósti. Nýtur hann að verulegu leyti fylgis fólks sem verður fyrst og fremst við kalli gömlu flokkanna, hagsmunasamtaka, þjóðfélagshópa og stéttarfélaga um að herja á framboð Le Pen með því að kjósa Macron í seinni umferðinni. Hinir sömu binda ekki endilega miklar vonir við stefnumál hans og margir þeirra í raun verulega mótstæðir, svo sem stéttarfélögin. Altjent segja þeir, að hann sé skárri kosturinn af tveimur slæmum.
Macron er aðeins 39 ára gamall og nái hann kjöri, eins og flest bendir til, verður hann yngsti þjóðhöfðingi Frakka frá því Napoleon keisari réði ríkjum í Frakklandi.
Marine Le Pen afkomandi Múhameðs
Franska fréttastofan AFP sendi frá sér frétt í vikubyrjun sem vakti athygli víða um heim. Þar sagði af rannsóknum ættfræðinga sem fundið höfðu meðal annars út, að Múhameð spámaður væri einn af langfeðgum Marine Le Pen. Á endanum fór þó svo að fréttastofan afturkallaði fréttina og sagði að um drög hefði verið að ræða sem birst hefðu fyrir mistök. Áfram hélt samt ættfræði sérfræðingurinn sem þar kom við sögu, Jean-Louis Beaucarnot, að halda því fram við fjölmiðla að tilgátan væri sönn. „Ég staðfesti að allt er rétt sem eftir mér var haft í fréttinni,“ sagði hann við dagblaðið Le Parisien, og bætti því við að Le Pen væri afkomandi spámannsins í móðurætt sína. Frétt þessi vekur athygli sakir andúðar Le Pen í garð útlendinga og þó sérstaklega fylgismenn Múhameðs.