Trump víkur Comey frá störfum

James Comey, forstjóri FBI.
James Comey, forstjóri FBI. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur vikið James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, frá störfum. Þetta segir Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, en uppsögnin mun vera samkvæmt ráðlagningum dómsmálaráðherrans Jeff Sessions.

New York Times greinir frá þessu.

Alríkislögreglan hefur undanfarna mánuði haldið utan um rannsókn á tengslum kosningaframboðs Trumps við Rússland.

„Forsetinn hefur samþykkt tillögu dómsmálaráðherrans og aðstoðardómsmálaráðherrans um að segja upp forstjóra alríkislögreglunnar,“ sagði Spicer við fréttamenn í Hvíta húsinu. Þá kom fram í máli hans að leit að nýjum forstjóra myndi hefjast „þegar í stað“.

Uppsögnin mun líklega valda skjálftum í stjórnkerfi Bandaríkjanna, einkum í ljósi yfirstandandi rannsóknar alríkislögreglunnar.

Skipaðir til tíu ára í senn

Forstjórar FBI eru skipaðir til tíu ára í senn. Comey, sem er 56 ára og vinsæll meðal undirmanna sinna, var skipaður í embættið fyrir aðeins fjórum árum.

Í bréfi til Comey segir Trump: „Þér er hér með sagt upp og vikið úr embætti,“ áður en tekið er fram að ákvörðunin taki gildi samstundis.

Líkindi með ákvörðun Nixons

„Þó ég sé mjög þakklátur fyrir það að þú hafir upplýst mig, í þremur aðskildum tilvikum, um að ég sæti ekki rannsókn, þá er ég sammála mati dómsmálaráðuneytisins, þess efnis að þú sért ekki hæfur til að stýra stofnuninni með skilvirkni.“

Nokkur líkindi eru með þessari ákvörðun Trumps og þeirri sem Richard Nixon forveri hans tók árið 1973, þegar hann vék dómsmálaráðherra sínum frá störfum og steypti sér þannig í enn meiri hremmingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka