Vill samtal við Norður-Kóreu

Forsetaframbjóðandinn Moon Jae-In og eiginkona hans, Kim Jeong-Sook.
Forsetaframbjóðandinn Moon Jae-In og eiginkona hans, Kim Jeong-Sook. AFP

Forsetakosningar fara fram í Suður-Kóreu í dag þar sem kjörinn verður nýr forseti í stað Park Geun-Hye sem var vikið úr embætti vegna spillingar á sama tíma og vaxandi spenna hefur verið á Kóreuskaganum vegna eldflaugatilrauna Norður-Kóreu.

Fram kemur í frétt AFP að reiði kjósenda vegna spillingarmála fyrrverandi forseta Suður-Kóreu setji mikið mark á kosningarnar auk óánægju vegna minnkandi hagvaxtar og atvinnuleysis. Skoðanakannanir undanfarna mánuði benda til þess að vinstrimaðurinn og mannréttindalögfræðingurinn fyrrverandi Moon Jae-In hafi afgerandi forskot á aðra frambjóðendur en hann er frambjóðandi Lýðræðisflokksins.

Síðasta skoðanakönnun frá Gallup sýndi Moon, sem er 64 ára gamall, með 38% fylgi en næstur kemur miðjumaðurinn Ahn Cheol-Soo, frambjóðandi Þjóðarflokksins, með 20%. Þriðji samkvæmt könnunum er Hong Joon-Pyo, frambjóðandi Frjálslynda flokksins, með 16%. Hong, sem er frambjóðandi hins íhaldssama Frelsisflokks sem Park var í framboði fyrir, hefur meðal annars sakað Moon um að vera hlynntan stjórnvöldum í Norður-Kóreu. 

Breytt stefna gagnvart Bandaríkjunum?

Kosningarnar hafa hins vegar aðallega snúist um efnahagsmál en minna um Norður-Kóreu en fram kemur í frétt AFP að eftir áratug undir stjórn íhaldsmanna gæti verið fram undan breytt stefna bæði gagnvart stjórnvöldum í nágrannaríkinu í norðri og Bandaríkjunum.

Moon hefur verið sakaður af fleirum um að vera of linur í afstöðu sinni til Norður-Kóreu en hann hefur talað fyrir auknu samtali við ráðamenn í nágrannaríkinu og að fá þá að samningaborðinu til þess að draga úr spennunni. Þá hefur hann einnig lagt áherslu á aukið sjálfstæði í utanríkismálum gagnvart Bandaríkjunum.

Samtals standa kjósendur frammi fyrir vali á milli 13 frambjóðenda. Búist er við góðri kjörsókn miðað við fyrri kosningar en kjörstöðum lokar klukkan 11:00 í dag en þeir opnuðu klukkan 21:00 í gærkvöldi að íslenskum tíma. Búist er við að niðurstöður útgönguspár liggi fyrir þegar kjörstöðum lokar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert