Þýskir saksóknarar standa á bak við húsleitir víðs vegar um landið í dag þar sem leitin beinist að mögulegum hryðjuverkamönnum og stuðningsmönnum vígasamtaka.
Lögreglan leitaði meðal annars á heimilum í Berlín, Bæjaralandi, Saxlandi og Saxlandi-Anhalt í morgun. Að sögn lögreglu beindist leitin einkum að þremur einstaklingum, tveimur sem eru grunaðir um að vera liðsmenn Ríkis íslams en sá þriðji er grunaður um að styðja samtökin. Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er.
Spiegel greinir frá því á vef sínum að tveir þeirra séu grunaðir um vopnalagabrot. Innanríkisráðherra, Thomas de Maizière, hefur ekki viljað gefa frekari upplýsingar um aðgerðir lögreglunnar.