Þeir sem nýlega eru skráðir á atvinnuleysisskrá í Ástralíu geta átt von á því að vera sendir í lyfjapróf en þetta er liður í að reyna að fækka þeim fíklum sem eru skráðir atvinnulausir og þiggja bætur.
Yfirvöld í Ástralíu segja að allt að 5 þúsund manns á atvinnuleysisskrá verði nú gert að fara í lyfjapróf og ef þeir mæta ekki verða bætur þeirra settar inn á greiðslukort sem aðeins er hægt að nota til þess að kaupa mat-og hreinlætisvörur. Þeim sem ekki mæta í lyfjapróf þrátt fyrir ítrekuð tilmæli verður gert að mæta hjá lækni til meðferðar.
Fjármálaráðherra Ástralíu, Scott Morrison, segir að í fyrstu verði gerð tilraun með fimm þúsund manns á atvinnuleysisskrá og ef þetta gengur ekki upp verður verkefninu hætt. En ef það gengur upp og fær fíkla til þess að leita sér aðstoðar verður því fram haldið. Alls eru 5,9% Ástrala á atvinnuleysisskrá eða 753 þúsund manns.
Ríkisstjórnin vonast til þess að áætlunin, auk þess sem til stendur að stöðva greiðslur til þeirra sem ekki mæta í atvinnuviðtöl, geti sparað skattgreiðendum yfir 600 milljónir ástralska dala, sem svarar til 47 milljarða króna, á næstu fjórum árum.
Áætlunin verður virkjuð á þeim stöðum Ástralíu þar sem mjög hátt hlutfall íbúa glímir við metamfetamín-fíkn. Félagsmálaráðherra, Christian Porter, segir að vonir standi til þess að með því að senda fólk í lyfjapróf og einhverja í meðferð sé hægt að veita fólki þá aðstoð sem það þarf á að halda.
Ekki eru hins vegar allir sáttir við þessa aðgerð og segja tilgang hennar þann að ráðast enn einu sinni gegn þeim sem minna mega sín.