Samfélag gyðinga í Danmörku hefur kallað eftir því að lögreglan rannsaki imam sem er sagður hafa hvatt múslima til að myrða gyðinga. Mundhir Abdallah er imam Masjid Al-Faruq-moskunnar í Norrebro, sem fjölmiðlar hafa tengt við öfgaíslam.
„Dómsdagur kemur ekki fyrr en múslimar berjast gegn gyðingum og drepa þá,“ segir Abdallah í myndskeiði sem birst hefur á YouTube, samkvæmt þýðingu Middle East Media Research Institute í Bandaríkjunum.
Dan Rosenberg Asmussen, leiðtogi gyðingasamfélagsins í Danmörku, vill að lögregla hefji rannsókn á því hvort imaminn hafi gerst sekur um að hvetja til kynþáttahaturs.
„Við óttumst að hinir veiku og þeir sem auðvelt er að hafa áhrif á gætu túlkað predikanir á borð við þessa sem ákall um að fremja ofbeldis- eða hryðjuverk gegn gyðingum,“ sagði Asmussen í samtali við Politiken.
Inger Stojberg, ráðherra innflytjendamála, segir predikun imamsins „hræðilega, and-lýðræðislega og andstyggilega“.
Samkvæmt DR sótti Omar al-Hussein, sem skaut tvo til bana í Kaupmannahöfn í febrúar 2015, umrædda mosku daginn áður en hann lét til skarar skríða.