Nokkrum dögum áður en James B. Comey var rekinn úr starfi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, óskaði hann efir heimild dómsmálaráðuneytisins til þess að fá aukinn mannafla til starfa við rannsókn stofnunarinnar á aðkomu Rússa að bandarísku forsetakosningunum í fyrra.
Þetta er fyrsti staðfesti vitnisburðurinn um að Comey teldi að FBI þyrfti aukinn mannafla við rannsóknina, segir í frétt New York Times í dag. Blaðið fékk þetta staðfest hjá fjórum embættismönnum bandaríska þingsins en það var Rod J. Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra sem lagði fram beiðnina. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, byggði brottrekstur Comey á minnisblaði Rosenstein um störf Comey.
Samkvæmt NYT er ekki vitað hvað varð til þess að Comey lagði fram beiðnina né heldur hvaða áhrif hún hafði á brottreksturinn. Aftur á móti sé framtíð rannsóknarinnar óljós.
Samkvæmt minnisblaði Rosenstein var rannsókn alríkislögreglunnar á tölvupóstsmáli Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps í forsetakosningunum, harðlega gagnrýnd.
Sagði þar að Comey hefði í fyrsta lagi ekki átt að halda sérstakan fréttamannafund í júní á síðasta ári, þar sem hann fór rækilega yfir mál Clinton, en lýsti því jafnframt yfir að ekki væri ástæða til þess að sækja Clinton til saka. Þá hefði verið ámælisvert að tilkynna sérstaklega stuttu fyrir kosningarnar að nýir tölvupóstar hefðu fundist í málinu, en sú yfirlýsing er af mörgum, þar á meðal Clinton sjálfri, talin hafa haft áhrif á úrslit kosninganna.
Tvær rannsóknarnefndir á vegum bandaríska þingsins á afskiptum Rússa byggja á gögnum og upplýsingum frá leyniþjónustustofnunum sem FBI hefur safnað saman og ef ekkert verður af frekari rannsókn hjá FBI er talið líklegt að erfitt verði um vik að ljúka störfum nefndanna.
Leyniþjónustunefnd þingsins birti sína fyrstu stefnu í rannsókninni í gær þar sem Michael T. Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, er skipað að afhenda afrit af tölvupóstum, upptökum af símtölum, fundum og samningum við Rússa.
Daginn áður hóf nefnd á vegum öldungadeildarinnar að þrýsta á lítið þekkta ríkisstofnun sem sér um að rekja peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka um upplýsingar tengdar Rússa-rannsókninni.
Stjórnarformaður og varaformaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar hafa boðið Comey að bera vitni fyrir luktum dyrum sem þýðir að hann getur rætt leynilegar upplýsingar og upplýst um allt sem fór milli hans og fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og eða Trumps. Comey hefur ekki svarað hvort hann muni taka tilboðinu.
Comey skrifaði starfsfólki FBI kveðjubréf í gær þar sem hann segist ekki ætla að eyða tíma í að velta sér upp úr ástæðunni fyrir uppsögninni.
Hann hefði lengi vitað að forseti gæti rekið forstjóra FBI úr starfi af hvaða ástæðu sem væri eða jafnvel án ástæðu. Það væri erfitt að yfirgefa hóp fólks sem hefur skuldbundið sig til þess að gera það rétta. Hann vonaðist til þess að þau héldu áfram að styðja gildi stofnunarinnar um að vernda bandarísku þjóðina og gæta þess að stjórnarskrá landsins væri fylgt.