Hafa handtekið 20 starfsmenn Cumhuriyet

Að minnsta kosti 19 starfsmenn Cumhuriyet hafa verið handteknir og …
Að minnsta kosti 19 starfsmenn Cumhuriyet hafa verið handteknir og ákærðir í kjölfar valdaránstilraunarinnar í fyrra. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið ritstjóra vefútgáfu stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet en 19 starfsmenn blaðsins hafa verið handteknir og ákærðir í aðgerðum yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar í landinu í júlí í fyrra.

Oguz Guven var handtekinn í Istanbúl og færður á lögreglustöð til yfirheyrslu, samkvæmt fréttastofunni Anadolu. Guven sagði sjálfur frá því á Twitter að honum væri haldið af lögreglu.

Að því er fram kom í frétt Anadolu var Guven handtekinn í tengslum við frétt af dauðsfalli saksóknarans Mustafa Alper, sem lést í umferðarslysi í vikunni. Alper var meðal þeirra sem höfðu sótt mál gegn þeim sem voru handteknir í tengslum við valdaránstilraunina.

Cumhuriyet hefur verið leiðandi í gagnrýni á forsetann Recep Tayyip Erdogan og flestir starfsmenn blaðsins sem hafa verið handteknir sitja enn í fangelsi. Um er að ræða nokkur stærstu nöfnin í tyrneska fjölmiðlaheiminum; aðalritstjórann Murat Sabuncu, blaðamanninn og rithöfundinn Ahmet Sik, dálkahöfundinn Kadri Gursel og skopmyndateiknarann Musa Kart.

Blaðamennirnir eiga yfir höfði sér allt að 43 ára fangelsi. Þeir hafa verið sakaðir um að vera meðlimir „hryðjuverkahóps“ og um að veita ólöglegum samtökum aðstoð. Stuðningsmenn þeirra segja sakirnar fáránlegar.

Fyrrverandi aðalritstjóri Cumhuriyet, Can Dundar, var í fyrra dæmdur í fimm ára og 10 mánaða fangelsi en flúði til Þýskalands. Tilefni ákæranna á hendur Dundar var forsíðufrétt þess efnis að tyrknesk stjórnvöld hefðu sent vopn til Sýrlands.

Talið er að um 165 blaðamenn sitji í fangelsi í Tyrklandi. Flestir voru handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar í fyrra. Tyrkland er í 155. sæti á lista Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi, rétt fyrir neðan Hvíta-Rússland og Austur-Kongó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert