Trump: Engin rannsókn í gangi

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti heldur því fram að bandaríska alríkislögreglan (FBI) sé ekki að rannsaka hann og hans málefni. Hann segir að James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI, sem Trump rak í vikunni, hafi verið athyglissjúkur monthani.

Trump lét ummælin falla í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC News. Þar sagði Trump enn fremur, að hann einn hefði ákveðið að víkja Comey frá störfum. 

Comey stýrði rannsókn á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum og hvort mögulega hafi verið tengsl á milli lykilmanna í framboði Trumps og rússneskra yfirvalda meðan á kosningabaráttunni stóð. Frá þessu er greint á vef BBC.

Trump segir að rannsóknin sé ekkert annað en sýndarmennska sem er þvert á það sem eftirmaður Comey í starfi hefur látið hafa eftir sér. 

James Comey.
James Comey. AFP

Viðtal Trump hjá NBC er að fyrsta sem hann veitir í kjölfar brottrekstursins. Trump sagði að hann hefði spurt Comey hvort hann væri til rannsóknar. 

„Ég sagði, ef þú mögulega getur myndirðu láta mig vita, er verið að rannsaka mig?“

„Og hann svaraði: „Það er ekki verið að rannsaka þig.“.“

Trump bætti því við að hann vissi að hann væri ekki til rannsóknar. Þá virtist hann draga úr fyrri fullyrðingum talsmanna Hvíta hússins um að hann hefði ákveðið að víkja Comey frá störfum í kjölfar ráðlegginga hátt settra embættismanna. 

„Hann er monthani. Hann er athyglissjúkur. FBI hefur átt undir högg að sækja. Ég ætlaði alltaf að reka Comey. Þetta var mín ákvörðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert