Eldflaugaskot frá Norður-Kóreu

Leiðtogi Norður-Kóreu Kim Jong-Un.
Leiðtogi Norður-Kóreu Kim Jong-Un. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa skotið eldflaug á loft, samkvæmt fréttum frá Suður-Kóreu. Eldflauginni var skotið frá Kusong-héraði, norðvestur af höfuðborginni Pyongyang, samkvæmt frétt Yonhap-fréttastofunnar. 

Undanfarin ár hefur Norður-Kórea skotið eldflaugum og kjarnavopnum ítrekað á loft við litla hrifningu alþjóðasamfélagsins og refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna.

Tvær tilraunir misheppnuðust í síðasta mánuði en í báðum tilvikum sprungu eldflaugarnar skömmu eftir að þeim var skotið á loft. Talið er að Norður-Kórea sé að reyna að reyna þróa kjarnaodda sem passa á langdrægar flaugar sem hægt er að skjóta verulegar vegalengdir.

Norður-Kóreumenn sprengdu tvær kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni í fyrra en þeim hefur ekki enn tekist að skjóta langdrægri eldflaug sem getur borið kjarnaodd.

Siegfried Hecker, kjarnorkuvísindamaður við Stanford-háskóla í Kaliforníu, telur að það geti tekið Norður-Kóreumenn fimm til tíu ár að þróa kjarnavopn sem hægt væri að skjóta á meginland Bandaríkjanna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert