Íhaldið vinsælla á meðal verkafólks

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AFP

Breski Íhaldsflokkurinn nýtur meira fylgis á meðal verkafólks en Verkamannaflokkurinn samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar í Bretlandi en þingkosningar fara fram í landinu 8. júní. Íhaldsmenn njóta þannig stuðnings 44% kjósenda í þeim hópi en Verkamannaflokkurinn 35%. Sögulega hefur verkafólk verið kjarninn í fylgi þess síðarnefnda.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þeir sem tilheyra þessum hópi séu einkum ófaglærðir og þeir sem þiggi atvinnuleysisbætur. Búist er við að Íhaldsflokkurinn muni vinna stórsigur í kosningunum og stórauka þingmeirihluta sinn. Boðað var til kosninganna með skömmum fyrirvara í síðasta mánuði en áður stóð til að kjósa árið 2020.

Breskir íhaldsmenn gera sér vonir um að ná tugum þingsæta af Verkamannaflokknum en ákvörðun forystu Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), um að bjóða ekki fram í tugum kjördæma þar sem Íhaldsflokkurinn býður fram frambjóðanda sem hefur stutt fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, er talin auka verulega líkurnar á að sú verði raunin.

Skoðanakönnunin, sem gerð var af fyrirtækinu ORB, sýnir Íhaldsflokkinn á landsvísu með 46% fylgi, Verkamannaflokkinn með 32%, Frjálslynda demókrata með 8% fylgi og Breska sjálfstæðisflokkinn með 6%. Frjálslyndir demókratar hafa lagt áherslu á andstöðu við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem virðist ekki hafa aukið fylgi þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert