Flokkur Merkel með mikilvægan sigur

Stuðningsmenn CDU fagna fyrstu tölum sem birtust fyrr í dag.
Stuðningsmenn CDU fagna fyrstu tölum sem birtust fyrr í dag. AFP

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur unnið sigur í sambandsþingskosningum sem haldnar voru í dag í Norður-Rín Vestfalía (Nordrhein-Westfalen) samkvæmt fyrstu útgönguspám. Nær flokkurinn sætum af helsta stjórnarandstöðuflokknum, Sósíaldemókrataflokknum (SPD) sem var með flest sæti í sambandsríkinu fyrir kosningarnar.

Samkvæmt fyrstu tölum hefur CDU bætt við sig um 8,2% atkvæða á meðan fylgi SPD hefur dregist saman um 8,6%. Samkvæmt frétt Frankfurter Allgemeine er CDU með 34,4% atkvæða á móti 30,6% atkvæða hjá SPD.

Frjálsir demókratar (FDP) eru með 11,9% atkvæða og fara upp um 3,3% miðað við síðustu kosningar. Þá kemur Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD), sem er hægrisinnaður þjóðernisflokkur, nýr inn á þingið í sambandsríkinu með 7,6% atkvæða. Græningjar missa aftur á móti fylgi og fara úr 11,3% niður í 6%.

SPD hefur frá lokum seinna stríðs meira og minna verið stærsti flokkur sambandsríkisins, en ríkið er fjölmennasta ríki Þýskalands og hafði leiðtogi SPD sagt fyrir kosningarnar að ynni flokkurinn sigur í dag yrði hann næsti kanslari Þýskalands. Sigur CDU mun aftur á móti gefa Merkel byr undir báða vængi fyrir komandi kosningar þar sem hún sækist eftir kanslaraembættinu í fjórða skiptið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert