Eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna í gær voru til að prófa nýja gerð eldflauga. Þetta er haft eftir fréttamiðlum í Norður-Kóreu sem segja að um sé að ræða mið- og langdræga eldflaug sem ber nafnið Hwasong-12.
Ríkisrekna fréttastofan KCNA sagði í dag að leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, hafi persónulega fylgst með tilraunaskotinu í gær.
Eldflauginni var skotið frá Kusong-héraði, norðvestur af höfuðborginni Pyongyang
Tvær tilraunir misheppnuðust í síðasta mánuði en í báðum tilvikum sprungu eldflaugarnar skömmu eftir að þeim var skotið á loft. Talið er að Norður-Kórea sé að reyna að þróa kjarnaodda sem passa á langdrægar flaugar sem hægt er að skjóta verulegar vegalengdir.
Norður-Kóreumenn sprengdu tvær kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni í fyrra en þeim hefur ekki enn tekist að skjóta langdrægri eldflaug sem getur borið kjarnaodd.
Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, og Xi Jinping, forseti Kína, hafa báðir lýst yfir áhyggjum sínum í dag vegna eldflaugaskotsins.