Forseti Rússlands, Vladimír Pútín og Xi Jinping, forseti Kína, hafa báðir lýst yfir áhyggjum sínum í dag vegna eldflaugaskots Norður-Kóreu. Pútín og Xi áttu óformlegan fund á alþjóðlegri ráðstefnu í Peking í dag þar sem þeir ræddu meðal annars ástandið á Kóreuskaganum, að sögn Dmitrí Peskov, talsmanns forseta Rússlands.
Aðeins eru liðnir nokkrir dagar síðan nýr forseti sór embættiseið í Suður-Kóreu. Norður-Kórea hefur skotið á loft nokkrum eldflaugum undanfarin misseri en að sögn japanskra yfirvalda var eldfluginni í gærkvöldi skotið á loft í Kusong og hafnaði í Japanshafi eftir um 700 km langt flug.
Nýkjörinn forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, segir að um ögrun sé að ræða en hann hefur hvatt til bættra samskipta ríkjanna tveggja.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hvetur til þess að refsiaðgerðir gagnvart N-Kóreu verði hertar og segir þessa nýjustu ögrun úr garði N-Kóreu kalla á að allar þjóðir sameinist um að herða aðgerðir gegn ríkinu.
Trump segir að flugskeytið hafi farið svo nálægt rússnesku yfirráðasvæði að hann geti ekki ímyndað sér að Rússar séu sáttir við aðgerðir N-Kóreu.
„Norður-Kóreu hefur allt of lengi komist upp með óskammfeilnar hótanir,“ segir í yfirlýsingu sem Trump sendi frá sér.
Þjóðaröryggisráðgjafi Trump, H.R. McMaster, hefur átt símafundi með starfsbræðrum sínum í Japan og Suður-Kóreu vegna málsins.