Heilbrigður 16 ára unglingur lést eftir að hafa neytt nokkurra drykkja með hátt koffíninnihald á skömmum tíma. Þetta var niðurstaða dánardómstjóra í Suður-Karólínuríki.
Davis Allen Cripe féll niður í skólanum í apríl sl. eftir að hafa drukkið stóran bolla af latte kaffi frá McDonalds, rúman hálfan lítra af Mountain Dew gosdrykk og orkudrykk á innan við tveimur klukkutímum.
Reuters fréttastofan hefur eftir dánardómstjóranum Gary Watts að Cripe hafi líklega dáið af völdum hjartsláttartruflana sem rekja mátti til koffínneyslunnar.
Cripe vó um 90 kg og var því nokkuð þungur, en átti ekki við neina hjartasjúkdóma að stríða og hefði ekki talist hættulega of þungur, að sögn Watts.
„Þetta er ekki of ofneysla á koffíni,“ sagði hann. Heldur sé talið að orsökin sé hve neyslan stóð yfir í stuttan. Það hafi valdð hjartsláttartruflununum.
Watts bætti við að væntanlega hefði koffínneyslan ekki verið talin eiga þátt í dauða Cripe, nema af því að vitni að láti hans gátu sagt lögreglumönnum hvað hann hefði drukkið áður en hann dó.
„Við erum ekki að mæla gegn koffínneyslu,“ sagði hann. „En við teljum að fólk verði að vera meðvitað um koffínneyslu sína.“
Samtök barnalækna í Bandaríkjunum (AAP) hafa varað við neyslu barna og unglinga á orkudrykkjum. Innihaldsefnin hafi ekki verið prófuð á börnum og ekki sé hægt að tryggja að þau séu örugg, enda geti neysla orkudrykkja leitt til óreglulegs hjartsláttar og breytinga á blóðþrýstingi.
Talið er að Cripe hafi neytt allt að 470 mg af koffíni áður en hann lést.