Ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu hefur staðfest „vel heppnað“ skot meðaldrægrar eldflaugar. Þar kemur einnig fram að vopnið sé núna tilbúið til notkunar í hernaði.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafði yfirumsjón með skotinu.
„Þar sem hernaðarfræðileg og tæknileg gögn standast kröfur flokksins er mælt með því að þessi eldflaug verði fjöldaframleidd með hraði til að vopnavæða KPA-herliðið,“ sagði Kim Jong-un og átti við norðurkóreska herinn.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákvað fyrr í dag að hittast á þriðjudaginn vegna eldflaugatilraunarinnar sem norðurkóresk stjórnvöld hafa núna staðfest að hafi átt sér stað.
Eldlauginni var skotið frá Pukchang í suðurhluta Pyongan-héraðs og ferðaðist hún um 500 kílómetra áður en hún lenti í Japanshafi.
Aðeins ein vika er liðin síðan Norður-Kórea skaut annarri eldflaug sem ferðaðist tæplega 800 kílómetra og er hún þannig gerð að hún getur borið með sér „þunga“ kjarnaodda.