Donald Trump hefur ítrekað komist í fjölmiðla fyrir umdeildar ákvarðanir frá því hann tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar á þessu ári. Í hugum margra minnir forsetatíð hans um margt á það að horfa á slys í beinni og geta ekkert gert. Kjarni kjósenda Trumps eru þó enn staðfastir stuðningsmenn forsetans, gera lítið úr hneykslismálunum og eru bara nokkuð ánægðir með að hann sendi ráðamönnum í Washington fingurinn.
Þessi skoðun virðist a.m.k. vera algeng meðal þeirra sem AFP-fréttastofan ræddi við í Alamance-héraði, einum íhaldssamasta hluta Norður-Karólínuríkis.
„Ég held að demókratar séu að reyna að gera honum erfitt fyrir,“ sagði Robin Hall. Hún hafnaði alfarið fréttum af ringulreið í Hvíta húsinu undanfarnar vikur og sagði það bara vera óánægju þeirra gagnrýnenda sem enn trúa því ekki að Trump hafi verið kjörinn.
„Þeir eru í rusli núna,“ sagði Hall. „Þeir eru ekki lengur við stjórnartaumana.“
Fjórum mánuðum eftir að hann tók við embætti virðast flestir stjórnmálaskýrendur vera sammála um að hart sé sótt að forsetanum úr öllum áttum.
Demókratar ásaka hann um að reyna að hindra að réttlæti nái fram að ganga með því að hvetja James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, til að hætta rannsókn á ráðgjafa sínum og reka síðan Comey, sem fór fyrir rannsókn á mögulegum tengslum framboðs Trump og rússneskra ráðamanna.
Þá hafa fréttir borist af því að forsetinn hafi deilt leynilegum upplýsingum með rússneskum embættismönnum á nýlegum fundi og að FBI hafi skilgreint háttsettan embættismann í Hvíta húsinu sem „áhugaverðan einstakling“ í Rússarannsókninni.
Vinsældir Trumps hafa þá hrapað frá því hann tók við og mældust ekki nema 37% í skoðanakönnun sem Gallup birti sl. föstudag.
Á sama tíma hefur Trump verið ötull við að varpa pólitískum sprengjum með Twitter-skilaboðum sínum. Ummæli forsetans hafa vakið hneykslan margra þingmanna Repúblikanaflokksins, sem hafa kosið að skapa vissa fjarlægð milli sín og forsetans.
Grasrót Repúblikanaflokksins í hinu íhaldssama Norður-Karólínuríki hefur hins vegar litlar áhyggjur af slíkum hneykslismálum. Heldur eru menn þar stoltir af að verja forsetann og fullyrða að þeim sé slétt sama um slíkar ásakanir.
Wayne Booker, svartur lögfræðingur frá Norður-Karólínuríki og einn stuðningsmanna Trumps, segir einhverja aðgangsharða demókrata vera að ræða hvernig koma megi Trump frá völdum. „Hann verður samt ekki kærður,“ fullyrti Booker og hvatti menn til þess að hætta Rússarannsókninni. „Hættið þessu, haldið áfram og leyfið manninum að reyna að vinna vinnuna sína.“
Nokkrir aðrir stuðningsmenn forsetans sögðu AFP þó að þeir viðurkenndu að Trump hefði misstigið sig nokkrum sinnum, en að þeir hefðu fulla trú á að hann myndi bæta sig.
„Ég held það verði í lagi með hann,“ sagði háskólaneminn Cassidy Cloer. „Ég hef engar áhyggjur af hneykslismálunum.“
Hörðustu stuðningsmenn Trump segjast vera hrifnir af því hversu framhleypinn hann er og ólíkur hefðbundnum stjórnmálamönnum, jafnvel þó að það komi honum í vanda.
„Mér finnst frábært að sjá einhvern sem er ekki stjórnmálalega réttþenkjandi,“ sagði Brenda Murphy. „Persónulega finnst mér mikið koma til margra þeirra hluta sem hann hefur gert.“
„Það vildi enginn í Washington fá Trump,“ sagði Randy Kimrey. Stjórnmálaelítan í Washington ætti hins vegar að veita forsetanum tækifæri til að sanna sig í stað þess að halda áfram að reyna að grafa upp óhróður um hann. „Mér finnst eins og þeir séu bara að reyna að koma höggi á hann.
Matt Keye telur Rússarannsóknina hamla Trump með óréttmætum hætti. „Ég vil bara að hann komist áfram með stefnumál sín,“ sagði Keye og vísaði þar til áforma Trump um að afnema Obamacare-heilbrigðislöggjöfina og að gera breytingar á skattalöggjöfinni.
„Menn þurfa bara að gleyma þessum Rússaárekstri. Þeir eru bara óánægðir með að Hillary [Clinton] tapaði,“ bætti hann við. „Þeir verða bara að sætta sig við það og halda áfram. Við erum komin með nýjan forseta.“