Óttast um börn og unglinga – 22 látnir

Enn er margra ungmenna saknað eftir tónleikana með bandarísku söngkonunni Ariana Grande í Manchester í gærkvöldi. Á samfélagsmiðlum er verið að dreifa myndum af ungmennum sem ekki hafa enn látið vita af sér. 22 létust og yfir 50 eru særðir eftir að sprengja sprakk á leikvanginum í bresku borginni.

Talið er að um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða en það hefur ekki verið staðfest og enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni sem var gerð klukkan 22:35 að staðartíma, klukkan 21:35 að íslenskum tíma.

Bráðaliðar sem BBC hefur rætt við segja að einhverjir þeirra sem þeir hafi sinnt hafi verið með áverka sem virðast vera eftir flísasprengju en alls voru 59 fluttir á sjúkrahús.

Meðal þeirra sem enn er leitað eftir árásina er Olivia Campbell en hún fór á tónleikana með Adam vini sínum en um afmælisgjöf var að ræða. Hans er einnig saknað, samkvæmt frétt Guardian. 

Sprengjan sprakk skömmu eftir að barnastjarnan fyrrverandi Ariana Grande yfirgaf sviðið á leikvanginum sem er stærsta tónleikahöll Manschester. Alls rúmar höllin 18 þúsund gesti en talið er að um 21 þúsund manns hafi verið á tónleikunum.

Grande, sem er 23 ára gömul, er sérstaklega vinsæl hjá unglingsstúlkum og börnum. Hún skrifar á Twitter að hún sé algjörlega niðurbrotin. „Mér þykir þetta svo leitt. Ég á engin orð.“

Þeir sem voru á staðnum lýsa algjörri ringulreið þegar sprengjan sprakk. Andy Holey, sem kom þangað til þess að sækja eiginkonu sína og dóttur, segir að hann hafi kastast langa leið þegar sprengjan sprakk. „Þegar ég reis upp sá ég fólk liggjandi á gólfinu. Það fyrsta sem kom upp í hugann var að komast inn á leikvanginn og reyna að finna fjölskyldu mína,“ segir Holey í viðtali við AFP. „Ég fann þau loksins og þau eru heil á húfi.“

Holey segist ekki efast um að sprengja hafi sprungið og hún af stærri gerðinni. Hún hafi sprungið skammt frá miðasölunni við innganginn að höllinni.

„Ég heyrði hrikalegan hvell og allir hlupu af stað í áttina að okkur, öskrandi og grátandi. Allir ruddust yfir okkur og reyndu að komast út,“ segir Jessica í samtali við BBC en hún var á tónleikunum. 

„Það misstu allir stjórn á sér,“ segir leikkonan Isabel Hodgins sem var á tónleikunum en hún ræddi við Sky News. „Gangurinn var troðfullur og það var brunalykt og mikill reykur.“

Elena Semino, sem var að bíða eftir 17 ára gamalli dóttur sinni, segir í viðtali við Guardian að hún hafi fundið mikinn hita við hálsinn þegar hún kastaðist niður á gólfið. Þegar hún leit upp voru lík allt í kringum hana.

„Ég hef aldrei á ævinni verið svona hrædd. Dóttir mín er í miklu áfalli,“ segir Cheryl McDonald í viðtali við Sky News en hún var á tónleikunum með 9 ára gamalli dóttur sinni. Hún brotnaði saman í viðtalinu og segir að hryllingurinn hafi blasað við alls staðar og leikvangurinn hafi verið fullur af börnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert