Lík fjögurra fjallgöngumanna fundust í tjaldi í búðum fjögur á Everest í gær. Tjaldið var í 7.950 metra hæð en það voru björgunarsveitarmenn, sem voru þangað komnir til að sækja lík Slóvaka sem fórst á fjallinu, sem fundu fjórmenningana. Alls hafa tíu látist á Everest í vor.
Mingma Sherpa, sem stýrir starfi björgunarsveita á Everest, segir að ekki liggi fyrir hverjir fjórmenningarnir eru né heldur hver dánarorsök þeirra er. Samkvæmt fréttum fjölmiðla í Nepal er um tvo útlenda fjallgöngumenn að ræða og tvo innlenda fararstjóra.
Fjórir fórust á Everest um helgina, þar á meðal bandaríski læknirinn Roland Yearwood og Vladimir Strba frá Slóvakíu. Báðir létust í meira en átta þúsund metra hæð á svæði sem er nefnt „dauðasvæðið“ þar sem súrefnismörk falla mjög hratt og mikil hætta er á háfjallaveiki.
Lík indverska fjallgöngumannsins Ravi Kumar, 27 ára, fannst á mánudag en tveimur dögum áður hafði hann staðið á tindi Everest. Ástralskur fjallgöngumaður fórst síðan Tíbetmegin á Everest á sunnudag.
Tveir aðrir, Svisslendingurinn Ueli Steck og Min Bahadur Sherchan, 85 ára, höfðu fyrr á tímabilinu látist á fjallinu. Steck var einn þekktasti fjallgöngumaður heims en Sherchan hafði ætlað sér að verða elstur til þess að toppa Everest.
Alls hafa 382 hið minnsta náð á topp Everest með því að klífa suðurhliðina í vor og 120 Tíbetmegin.
Fastlega er gert ráð fyrir að mun fleiri muni ná að standa á toppi Everest næstu daga eða áður en monsúntímabilið hefst í byrjun júní.
Spánverjinn Kilian Jornet setti fyrr í vikunni nýtt hraðamet á Everest en hann fór frá grunnbúðum og upp á topp Everest á aðeins 26 klukkustundum. Þetta gerði hann án auka súrefnis og án þess að tryggja sig í öryggislínu (fixed rope).
Jornet fór upp norðurhlið Everest, úr grunnbúðum Tíbetmegin og stóð á toppi Everest á mánudag einn síns liðs.
Fjölmiðlafulltrúi Jornet, Laura Font, segir að þau telji að Jornet hafi sett nýtt hraðamet frá grunnbúðum upp á topp en það hefur ekki fengist staðfest opinberlega.
Með því að ferðast ekki með súrefni né línur er hægt að fara mun hraðar yfir en um leið er hættan mun meiri og má lítið út af bera. Jornet hefur áður sett hraðamet á fjölmörgum fjöllum. Þar á meðal Mont Blanc, Matterhorn, Denali, Aconcagua og Kilimanjaro.
Jornet ætlaði einnig að fara hraðar en nokkur annar fram og til baka í grunnbúðir en varð ekki að ósk sinni þar sem hann fékk magakveisu og þurfti að hvílast í búðum á leiðinni niður.
Jornet, sem er 29 ára gamall, segir í tilkynningu að það að ná á tind Everest án þess að nota öryggislínur er ekki eitthvað sem þú gerir á degi hverjum. Hann segist hafa upplifað stórkostlegt sólsetur á leiðinni upp og síðan staðið á hæsta tindi jarðar á miðnætti.
Ferðin hafi gengið vel upp í 7 þúsund metra hæð en þá fór maginn að angra hann. Eftir það miðaði hægar og á leiðinni niður varð hann að hvílast og jafna sig áður en lengra var haldið.
Samkvæmt heimsmetabók Guinness á ítalski fjallgöngumaðurinn Hans Kammerlander hraðametið á Everest, 16 klukkustundir og 45 mínútur, en metið var sett árið 1996. En Jornet og félagar hans segja að Kammerlander hafi miðað við tíma frá búðum sem eru í 6.500 metra hæð en Jornet miðar við búðir sem eru 1.400 metrum neðar.
Kílian Jornet er ótrúlegur afreksmaður en hann er þekktur langhlaupari með meiru.