Yfirvöld í Nepal hafa ekki getað borið kennsl á lík fjögurra fjallgöngumanna sem fundust í búðum fjögur á Everest í gær. Talið er hugsanlegt að mennirnir hafi látið lífið fyrir einhverjum árum.
Mennirnir fundust þegar björgunarsveitir voru að ná í lík Slóvaka sem fórst á fjallinu. „Björgunarsveitir fundu lík fjögurra fjallgöngumanna í gær. Við höfum ekki getað borið kennsl á þá né hvernig þeir létu lífið,“ sagði Mingma Sherpa, sem stýrir starfi björgunarsveita á Everest.
Fjölmiðlar í Nepal greina frá þvi að tveir mannanna séu erlendir og hinir tveir heimamenn.
„Okkar heimildamenn í grunnbúðunum gátu ekki staðfest að einhverra sem væru að klífa fjallið væri saknað. Okkur grunar því að þarna hafi fundist menn sem létu lífið fyrir mörgum árum,“ sagði Durga Dutta Dhakal við AFP.
Kröftugir vindar voru á Everest í gær sem varð til þess að margir urðu að snúa við úr áætluðum leiðöngrum sínum og halda til í tjöldum í búðum fjögur.
Af þeim sökum hafa sprottið upp orðrómar um að mennirnir hafi látið lífið úr eitrun eftir að hafa kveikt eld inni í lokuðu rými í tjaldinu sínu. Ef mennirnir létu lífið nýlega er tala látinna á Everest í vor komin upp í tíu.
Fjórir fórust á Everest um helgina, þar á meðal bandaríski læknirinn Roland Yearwood og Vladimir Strba frá Slóvakíu. Báðir létust í meira en átta þúsund metra hæð á svæði sem er nefnt „dauðasvæðið“ þar sem súrefnismörk falla mjög hratt og mikil hætta er á háfjallaveiki.
Lík indverska fjallgöngumannsins Ravi Kumar, 27 ára, fannst á mánudag en tveimur dögum áður hafði hann staðið á tindi Everest. Ástralskur fjallgöngumaður fórst síðan Tíbetmegin á Everest á sunnudag.
Tveir aðrir, Svisslendingurinn Ueli Steck og Min Bahadur Sherchan, 85 ára, höfðu fyrr á tímabilinu látist á fjallinu. Steck var einn þekktasti fjallgöngumaður heims en Sherchan hafði ætlað sér að verða elstur til þess að toppa Everest.