Vel fór á með Trump og páfa

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hitti Frans páfa að máli í Páfagarði í morgun. Vel fór á með þeim, að minnsta kosti opinberlega, en þeir hafa ítrekað tekist á enda ósammála um fleiri hluti en þá sem þeir eru sammála um.

Fundur þeirra stóð yfir í tæpan hálftíma og hófst hann með því að þeir tókust í hendur og brostu fyrir framan myndavélar fjölmiðla. Trump heyrðist segja: Þakka þér fyrir og það er mikill heiður að vera hér.

Frans páfi var mun alvarlegri í bragði en var mun glaðlegri að fundi loknum heldur en þegar þeir gengu inn í herbergið. Fundurinn var ákveðinn með litlum fyrirvara og voru gerðar breytingar á dagskrá páfa svo Trump gæti hitt hann einslega. 

Mennirnir tveir hafa tekist á um ýmsa hluti. Svo sem dauðarefsingar og vopnaviðskipti en þeir eru sammála um eitt – fóstureyðingar. Jafnframt hafa þeir deilt um flóttafólk, frjálshyggju og loftslagsmál.

Trump mun ræða við forseta Ítalíu og forsætisráðherra í dag en Melania eiginkona hans mun heimsækja barnaspítala í Róm. Ivanka Trump mun ræða við félaga í St Egidio-trúarhreyfingunni um flóttafólk og mansal í dag.

Frá Róm fer Trump ásamt föruneyti til Brussel þar sem hann á fundi með leiðtogum Evrópusambandsins og NATO. Síðdegis á morgun kemur hann aftur til Ítalíu, nú á fund leiðtoga G7-ríkjanna á Sikiley.

Það fór nú bara vel á með þeim Donald Trump …
Það fór nú bara vel á með þeim Donald Trump og Frans páfa í morgun. AFP
Ivanka Trump og Melania Trump ásamt Frans páfa.
Ivanka Trump og Melania Trump ásamt Frans páfa. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka