Eitt fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar á Manchester Arena-tónleikahöllina á mánudag, hin 15 ára gamla Laura McIntyre, berst nú fyrir lífi sínu. McIntyre var á tónleikunum með bestu vinkonu sinni, hinni 14 ára gömlu Eilidh MacLeod, en hún lést í árásinni.
Foreldrar McIntyre sendu frá sér yfirlýsingu nú í kvöld þar sem fram kom að dóttir þeirra væri fyndin og skemmtileg ung stúlka sem gerði allt vel sem hún tæki sér fyrir hendur. Þá væri hún viljasterk og mikill baráttujaxl.
„Laura og vinkona hennar Eilidh voru svo spenntar fyrir tónleikunum, en þetta kvöld hefur núna endað með harmleik þar sem Eilidh lést og Laura berst fyrir lífi sínu.“
Segja foreldrarnir að hugur þeirra hafi verið hjá fjölskyldu Eilidh eftir að þau fengu fréttirnar. Þá þakka þau allan stuðning sem þau hafa fengið og senda þakkir sínar jafnframt til heilbrigðisstarfsfólks sem annast nú dóttur þeirra.
„Við vitum að Laura er á besta mögulega stað og að fá bestu aðhlynningu sem hún getur fengið.“
Stofnuð hefur verið söfnunarsíða fyrir fjölskyldur McIntyre og MacLeod, en þegar hafa safnast rúm 30 þúsund pund eða tæpar 4 milljónir króna.