Dómstóll dæmir gegn Trump

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti varð í dag fyrir enn einu áfallinu á pólitíska sviðinu þegar alríkisdómstóll staðfesti úrskurð lægra dómstigs um að stöðva ferðabann hans vegna íbúa sex ríkja þar sem múslimar eru meirihluti íbúa.

Fram kemur í frétt AFP að niðurstaða alríkisdómstólsins þýði að málið fari að öllum líkindum næst til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Dómstóllinn segir í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið sýnt fram á að bannið snerist um þjóðaröryggi en ekki kosningaloforð Trumps um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Þess utan kemur fram að dómstóllinn sjái ekki hvernig áhyggjur ríkisstjórnarinnar af þjóðaröryggi vegi þyngra en ábyggjur þeirra, sem höfðuðu málið, af mismunun. Þrátt fyrir að Bandaríkjaþing hafi veitt forsetanum heimild til þess að meina erlendum ríkisborgurum að koma til Bandaríkjanna væri það vald ekki algert.

Ljóst væri að ákvörðun Trumps myndi valda fjölda einstaklinga í Bandaríkjunum óbætanlegu tjóni. Ekki væri hægt að horfa fram hjá því. Ákvörðun forsetans fjallaði með óljósum hætti um þjóðaröryggi á sama tíma og skortur á umburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum, andúð og mismunun skini í gegnum hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka