Vildi hefna fyrir morð á vini sínum

Salman Abedi.
Salman Abedi.

Salman Abedi, sem er grunaður um að hafa sprengt sjálfan sig í loft upp á tónleikunum í Manchester á mánudag þar sem 22 manns fórust, sagðist í fyrra vilja hefna sín vegna morðs á vini sínum.

Þetta sagði heimildarmaður sem er náinn fjölskyldu hans.

Vinur hans, sem var einnig af líbýskum uppruna, lést eftir að hafa verið stunginn af breskum ungmennum í Manchester í maí í fyrra.

„Margir ungir Líbýumenn í Manchester urðu reiðir vegna þess, sérstaklega Salman, sem lýsti því greinilega yfir að hann vildi hefna sín,“ sagði heimildarmaðurinn.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því að Abdul Wahab Hafidah hafi látist eftir að keyrt hafði verið yfir hann og hann stunginn í hálsinn í Moss Side-hverfinu í Manchester í fyrra.

Réttarhöld standa yfir grunuðum morðingjum hans.

„Okkur tókst að róa niður unga fólkið í hverfunum sem fannst eins það væri í hættu [...] sem múslímar,“ sagði hann. „En svo virðist sem Salman hafi ekki gleymt því sem gerðist.“

„Ég talaði sjálfur við hann og reyndi að sannfæra hann um að þetta hafi verið stakur glæpur.“

Stjórnvöld í Líbýu eru í nánu samstarfi með Bretum við að finna möguleg hryðjuverkanet sem tóku þátt í árásinni í Manchester á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert