Kom við í íbúð og sprengdi sig svo

Myndin af Salman Abedi sem lögreglan í Manchester dreifði til …
Myndin af Salman Abedi sem lögreglan í Manchester dreifði til fjölmiðla í dag. AFP

Lögreglan hefur í dag birtir myndir úr öryggismyndavélum af Salman Abedi, unga manninum sem sprengdi sjálfan sig í loft upp fyrir utan leikvanginn í Manchester á mánudag. 22 létust í árásinni og 116 særðust. Myndirnar eru teknar skömmu fyrir árásina.

Lögreglan hefur einnig sagt frá því sem hún hefur komist að varðandi síðustu klukkustundirnar í lífi Abedi áður en hann framdi hina hroðalegu árás. Enn er óskað eftir frekari upplýsingum um hvar Abedi var dagana fyrir árásina og hvað hann hafðist að.

Abedi var 22 ára. Á myndum lögreglunnar má sjá grannvaxinn mann með gleraugu og fínlegt yfirvararskegg. Hann er í strigaskóm og gallabuxum og með derhúfu á höfði. Hann klæðist þunnri dúnúlpu og hefur bakpoka á bakinu.

Lögreglan segir að áður en hann fór að leikvanginum í Manchester hafi hann farið í íbúð í miðborginni. Hann hafi svo farið beint þaðan og að leikvanginum þar sem tónlistarkonan Ariana Grande var að ljúka við tónleika sína og þúsundir gesta undirbjuggu heimferð.

Lögreglan segir að íbúðin sem hann heimsótti skipti verulegu máli í atburðarásinni en talið er að þar hafi lokasamsetning á sprengjunni átt sér stað. 

Ellefu eru sem stendur í haldi lögreglunnar í Bretlandi í tengslum við árásina. Abedi var af líbískum uppruna en fæddur og uppalinn í Manchester. Faðir hans og bróðir hafa verið handteknir í Líbíu vegna rannsóknar málsins.

Þúsund manns rannsaka málið

Lögreglan segir að rannsóknin gangi vel og biðlar nú til almennings að láta vita ef hann veit eitthvað um ferðir Abedi síðustu daga eða frá 18. maí er hann sneri aftur til Bretlands. Lögreglan hefur ekki upplýst frá hvaða landi Abedi var að koma. Ættingi hans hefur hins vegar staðfest við AFP-fréttastofuna að Abedi hafi verið í Líbíu og flogið þaðan áleiðis til Manchester. Tyrkneska og þýska lögreglan hafa sagt að hann hafi átt viðkomu á ferðalagi sínu í báðum þessum löndum.

Um þúsund lögreglumenn í Bretlandi vinna að rannsókn málsins.

„Á síðustu fimm dögum höfum við aflað mikilla upplýsinga um Abedi, samstarfsmenn hans, fjármál hans og staði sem hann hefur heimsótt. Einnig hvernig sprengjan var smíðuð,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester. 

Þriðjungur þeirra sem lést á mánudag var börn. 

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert