Þyrilsnældan óvinsæl hjá kennurum

Tom Wuestenberg og bróðir hans Louis leika sér með þyrilsnælduna.
Tom Wuestenberg og bróðir hans Louis leika sér með þyrilsnælduna. AFP

Tækið var hannað með það í huga að róa taugar, minnka streitu og bæta einbeitingu. Þyrilsnældan (e. fidget spinner) er nýjasta æðið hjá börnum hér á landi, líkt og evrópskum og bandarískum jafnöldrum þeirra. Kennarar eru hins vegar ekki allir jafnsáttir við þetta nýjasta æði sem þeir segja stela athyglinni frá námsbókunum. 

Ekki er langt síðan fyrstu þyrilsnældurnar þyrluðust inn í hendur fiktglaðra ungmenna og nú þegar hafa sumir skólar gripið til þess ráðs að banna notkun snældunnar.

„Þyrilsnældan kom líkt og úr lausu lofti og allt í einu var eins og annar hver krakki væri kominn með eina slíka,“ segir Meredith Daly, grunnskólakennari í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum. „Krakkarnir sögðu; „Þetta hjálpar mér að róa mig niður.“ Og ég vissi einfaldlega ekki hvað ég átti að halda í fyrstu.“

Vinsældir þessa ódýra leikfangs hafa komið mörgum á óvart, en þyrilsnældan var fyrst fáanleg í Evrópu fyrir rúmum mánuði.

Truflar við lærdóminn

Þyrilsnældurnar hafa vissulega þann kost að vera hljóðar segir Daly, en fljótt varð hins vegar ljóst að snældunum fylgdi „hvöt til að halda þeim á snúningi og börnin vilja horfa á þær snúast [...] og það er of mikil truflun þegar maður er að reyna að læra eitthvað nýtt.“

Þess vegna var ákveðið að banna allar þyrilsnældur í tímum í skólanum.

Þyrilsnælda er nýjasta æði hjá krökkum hér á landi sem …
Þyrilsnælda er nýjasta æði hjá krökkum hér á landi sem erlendis. AFP

Líkt og margir aðrir bandarískir kennarar, sem hafa látið óánægju sína með þetta nýja leikfang í ljós á samfélagsmiðlum undanfarið, leyfir Daly snældurnar aðeins í kennslustofunni í undantekningatilfellum og þá að beiðni foreldra. Einstaka sinnum kemur snældan sér vel fyrir börn með athyglisbrest, ofvirkni eða jafnvel í sumum einhverfutilfellum.

Skólar í Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi hafa þó gripið til þess ráðs að banna þyrilsnældurnar alfarið á skólalóðinni, jafnvel í frímínútum. Háaleitisskóli á Íslandi er einn þeirra skóla sem bannað hefur snældurnar.

Ekki eru öll börn sátt við bannið. Tom Wuesteberg er átta ára og býr í New York. „Það myndi hjálpa að hafa hana í skólanum [...] ef ég vil ekki læra meira þá get ég tekið þyrilsnælduna mína, spunnið í smá stund og farið svo aftur að læra,“ sagði hann.

„Fólk vill fikta“

Noelle Cullimore, sem býr á Long Island með tveimur börnum sínum, segir snælduna hjálpa tíu ára ofvirkum syni hennar að slappa af. 

„Hann snýr snældunni á strætóstoppistöðvum og í bílnum. Hún heldur honum við efnið og hefur að mestu reynst honum vel,“ segir Cullimore.

Richard Gottlieb, forstjóri Global Toy Expert, segir þyrilsnælduna ekki bara vera fyrir börn því snældan gefist fullorðnum líka vel til að eyða streitu. „Fólk vill fikta,“ segir hann. „Það er svo margt sem maður þarf að hafa áhyggjur af í heiminum í dag að fólk þarf að geta eytt streitunni.“

Sumir kennarar virðast þá, að sögn AFP, skynja að sum börn þurfa að hafa hluti til að fikta við svo þau geti einbeitt sér betur. Stressboltar og sérstakar sessur sem auðvelda börnum að einbeita sér eru því að verða sífellt algengari í skólum að sögn Daly.

„Við gætum líklega grætt vel ef okkur tækist að finna upp áhrifaríkt hljóðlaust leikfang sem börn gætu fiktað við á sama tíma og þau skrifuðu ritgerð,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert