Fleiri ganga hugsanlega lausir

Salman Abedi var 22 ára gamall.
Salman Abedi var 22 ára gamall. AFP

Inn­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, Am­ber Rudd, segir að fleiri samverkamenn Salmans Abedi sem sprengdi sig í loft upp í Manchester Arena-tónleikahöllinni á mánudag, gangi hugsanlega enn lausir. Þegar hafa 11 verið handteknir í Bretlandi, en Rudd segir að ekki sé hægt að útiloka að fleiri hafi staðið að ódæðinu. 

Þetta sagði ráðherrann í sjónvarpsviðtali á BBC í morgun. 22 lét­ust í árás­inni og 116 særðust.

Kom öryggisþjónustunni til varnar

„Rannsókn málsins er enn í fullum gangi,“ sagði Rudd og bætti við að ekki væri hægt að ganga úr skugga um að öll kurl væru komin til grafar fyrr en rannsókninni væri lokið. Sagði hún að hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams væru að reyna að fá unga Breta til liðs við sig.

Þá kom Rudd öryggisþjónustunni til varnar, en hún hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki fylgt eftir viðvörunum um Abedi. „Það er enn verið að safna upplýsingum um hann og fólkið í kringum hann. En ég myndi ekki gefa mér þá niðurstöðu að þeir hafi einhvern veginn misst af einhverju,“ sagði Rudd og beindi orðum sínum að spyrli þáttarins. „Þetta minnir okkur bara á vandamálið sem við erum að eiga við. Andstæðingurinn [Ríki íslams] er að reyna að vopna ungt fólk í samfélaginu okkar.“

Birtu myndir af Abedi

Breska lögreglan birti í dag mynd­ir úr ör­ygg­is­mynda­vél­um af Abedi. Mynd­irn­ar eru tekn­ar skömmu fyr­ir árás­ina. Lög­regl­an hef­ur einnig sagt frá því sem hún hef­ur kom­ist að varðandi síðustu klukku­stund­irn­ar í lífi Abedi áður en hann framdi hina hroðal­egu árás. Enn er óskað eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um um hvar Abedi var dag­ana fyr­ir árás­ina og hvað hann hafðist að.

Abedi var af líb­ísk­um upp­runa en fædd­ur og upp­al­inn í Manchester. Faðir hans og bróðir hafa verið hand­tekn­ir í Líb­íu vegna rann­sókn­ar máls­ins.

Lög­regl­an seg­ir að rann­sókn­in gangi vel og biðlar nú til al­menn­ings að láta vita ef hann veit eitt­hvað um ferðir Abedi síðustu daga eða frá 18. maí er hann sneri aft­ur til Bret­lands. Um þúsund lög­reglu­menn í Bretlandi vinna að rann­sókn máls­ins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert