Lá blæðandi í götunni og þóttist dáinn

Starfsmenn útfararstofu halda á líki grunaðs eiturlyfjasala í Filippseyjum.
Starfsmenn útfararstofu halda á líki grunaðs eiturlyfjasala í Filippseyjum. AFP

Í 51 af þeim fíkniefnarassíum filippseysku lögreglunnar þar sem komið hefur til skotbardaga, voru 100 þeirra sem aðgerðir lögreglu beindust gegn drepnir en aðeins 3 særðust. Drápshlutfall filippseysku lögreglunnar í slíkum aðgerðum er 97% og skýrslur lögreglumannanna eru grunsamlega líkar. Frásagnir vitna benda líka til að filippseyska lögreglan standi vísvitandi fyrir drápunum. 

Þeir Norberto Maderal og George Avanceña, sem báðir óku hjólavagni að atvinnu, tóku banvæna ákvörðun síðdegi eitt í október í fyrra er þeir reyndu að skjóta á óeinkennisklædda lögreglumenn í fátækrahverfi í norðurhluta Manila. Í skýrslu lögreglumannanna segir að þeir hafi varið sig og þetta hafi leitt til „dauða hinna grunuðu“.

Maderal og Avanceña eru aðeins tvö af fjölmörgum fórnarlömbum í fíkniefnastríði forsetans Rodrigo Dutertes.

Segja um sjálfsvörn að ræða í öllum tilfellum

Þegar lögregla grípur til vopna í fíkniefnastríði Dutertes deyja hinir grunuðu nær undantekningarlaust. Að sögn filippseysku lögreglunnar hefur lögregla drepið 2.400 fíkniefnasala í sjálfsvörn frá því Duterte tók við embætti í júlí í fyrra.

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir lögreglumenn hafa rétt til að …
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir lögreglumenn hafa rétt til að verja líf sitt. AFP

Fréttastofa Reuters rannsakaði 51 af þessum skotbardögum filippseysku lögreglunnar. Alls létust 100 einstaklingar sem aðgerðir lögreglu beindust gegn og þrír særðust, þar af höfðu tveir hinna særðu þóst vera dánir.  

Drápshlutfallið í skotbardögum lögreglu á Filippseyjum er mun hærra en í öðrum löndum. Í Rio de Janeiro í Brasilíu, þar sem lögregla hefur verið sökuð um skotgleði, lifir einn af hverjum fimm slíka skotbardaga af.

Á Filippseyjum er hlutfall þeirra sem deyja hins vegar 97%. Það þýðir að einn af hverjum 33 lifir af skotbardaga við lögreglu. Tölurnar tala sínu máli og segir Reuters erfitt fyrir lögregluyfirvöld á Filippseyjum að halda því fram að um sjálfsvörn sé að ræða í öllum þessum tilfellum. Hið rétta sé að lögregla sé vísvitandi að drepa hina grunuðu.

„Ætli sumar löggur séu ekki bara góðar skyttur“

Frásagnir vitna styðja þessa fullyrðingu og stangast oft á við skýrslur lögreglu. Frændi Norberto Maderal segir frænda sinn hafa verið óvopnaðan og kveðst hafa heyrt hann biðja um miskunn áður en lögregla hóf að skjóta.

Efren Morillo, einn þeirra fáu sem hefur lifað slíka lögreglurassíu af, segist líka hafa verið óvopnaður þegar lögreglumaður sem stóð í nokkurra metra fjarlægð frá honum skaut hann í brjóstið. Hann lá blæðandi á götunni og þóttist vera dáinn á meðan lögregla skaut félaga hans. „Ég bað í hljóði Guð um að leyfa mér að lifa,“ sagði hann. 

Skýrslur lögreglumanna af drápunum eru oft grunsamlega líkar. Á fórnarlambinu …
Skýrslur lögreglumanna af drápunum eru oft grunsamlega líkar. Á fórnarlambinu er sögð hafa fundist ónúmeruð byssa og poki með hvítu efni, sem grunur leiki á að sé metamfetamín. AFP

Þegar Derrick Carreon, talsmaður fíkniefnadeildar filippseysku lögreglunnar, er spurður hvers vegna flestar slíkar aðgerðir endi með dauða hinna grunuðu segir hann: „Ætli sumar löggur séu ekki bara góðar skyttur.“

Reuters segir það ekki auka á trúverðugleika slíkra skýringa að skýrslur lögreglumanna um atburðinn séu oft grunsamlega líkar. Þar er hinum látna gjarnan lýst sem fíkniefnaneytanda eða -sölumanni í einu af fátækari hverfum viðkomandi borgar. Þar er sögð hafa farið úr böndunum tilraun óeinkennisklæddra lögreglumanna til að standa viðkomandi að verki. Hinn grunaði er sagður hafa fyllst skelfingu og á að hafa dregið upp vopn sitt og farið að skjóta og lögregla hafi þá orðið að bregðast við.

Krufningaskýrslur óljósar

Á fórnarlambinu er síðan ítrekað sögð hafa fundist ónúmeruð byssa og poki með hvítu efni, sem grunur leikur á að sé „shabu“, sem er filippseyska nafnið á metamfetamíni og sem stjórn Dutertes  segir orsök meirihluta allra glæpa í landinu.

Rannsókn lögreglu á vettvangi og krufningaskýrslur eru síðan óljósar og yfirborðskenndar. Erfitt er fyrir ættingja hinna látnu að fá aðgang að skýrslunum og gerir það lítið til að draga úr tortryggninni í garð lögreglu.

Jun Nalangan, sérstakur rannsakandi hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (CHR) segir sönnunarmynstrið benda til þess að um morð sé að ræða. „Skýrslur lögreglu segja að það hafi verið skotbardagi. Rannsóknir okkar finna engin ummerki um slíkt. Í stað þess að standa fyrir fyrirfíkniefnarassíum eru þeir að myrða utan dóms og laga,“ sagði Nalang.

Manila höfuðborg Filippseyja. Flestir þeirra sem falla í aðgerðum lögreglu …
Manila höfuðborg Filippseyja. Flestir þeirra sem falla í aðgerðum lögreglu koma úr fátækari hverfum borga landsins. AFP

1.500 mál hjá innra eftirliti lögreglu

Rúmlega 1.500 fíkniefnaaðgerðir hafa komið inn á borð innra eftirlits lögreglunnar frá því að fíkniefnastríð Dutertes hófst. Engir lögreglumenn hafa þó á þeim tíma verið reknir úr starfi fyrir embættisglöp.

Yfirmenn fullyrða þó að innra eftirlitið rannsaki öll dráp lögreglu.

Dánartíðni lögreglu í skotárásunum er mun lægri en dánartíðni hinna meintu glæpamanna. Að sögn lögreglu hafa 17 lögreglumenn farist í fíkniefnastríðinu frá því í júlí í fyrra, það er einn lögreglumaður á hverja 118 meinta glæpamenn. Í Rio er hlutfallið 24,8 á hvern lögreglumann og í Suður-Afríku er hlutfallið í kringum 50%.

Duterte hafnar því engu að síður alfarið að lögregla drepi menn utan dóms og laga, en hefur á sama tíma sagst fagna hækkandi dánartíðni. Í september sagðist forsetinn „með gleði slátra“ þremur milljónum fíkniefnaneytenda. Í kosningabaráttunni hét hann því enn fremur að náða þá sem fremdu mannréttindabrot í baráttunni gegn glæpum.

Flest fórnarlambanna fátæk 

Í yfirlýsingu til Reuters segir forsetaskrifstofan að Duterte hafi ekki gefið lögreglu leyfi til að drepa fíkniefnasala, en að lögregla hafi rétt á að verja sig sé líf þeirra í hættu. „Stríðið gegn fíkniefnum er ekki barnaleikur,“ segir í yfirlýsingunni.

Leyniklefi fannst við skoðun Mannréttindaráðs á lögreglustöðinni í Tondo í …
Leyniklefi fannst við skoðun Mannréttindaráðs á lögreglustöðinni í Tondo í Manila fyrir skömmu. 12 manns hafði veirð troðið þangað inn. AFP

Reuters segir það vekja athygli að flestir hinna látnu eru fátækir, fólk á borð við þá Maderal og  Avanceña. Stjórnvöld vari hins vegar reglulega við því að „fíkniefnabarónar“ verði handteknir.

Joemari Rodriguez, frændi Maderals, segist telja að lögregla hafi tekið frænda sinn af lífi. Hann er hins vegar of hræddur til að leggja fram kvörtun. „Þeir gætu komið aftur og tekið mig,“ segir hann.

Réðust inn á heimili fjölskyldunnar

Hann skelfur af hræðslu við að rifja upp þegar þrír óeinkennisklæddir menn réðust inn á heimili fjölskyldunnar og drógu frænda hans inn í stofuna. „Þeir sögðu ekki hverjir þeir væru,“ sagði Rodriguez. Sjálfum var honum ýtt inn í annað herbergi og hurðinni haldið lokaðri. Hann sá ekki hvað gerðist næst, en heyrði frænda sinn biðja um miskunn. Síðan heyrðust tvö skot.

Nokkrum mínútum síðar komst hann út úr herbergi sínu og þá lá frændi hans látinn í blóðpolli og mennirnir voru á bak og burt. „Það var byssa í hendi hans, en ég veit ekki hvaðan hún kom,“ segir hann. Frændi hans hefði verið fíkniefnanotandi en hefði ekki átt byssu né hefði hann veitt mótspyrnu.

Bilibid-fangelsið í Manila. Myndin sýnir fíkniefni og annan búnað sem …
Bilibid-fangelsið í Manila. Myndin sýnir fíkniefni og annan búnað sem fannst við leit lögreglu í klefum fanga. AFP

Fimm mínútum síðar voru einkennisklæddir lögreglumenn mættir á staðinn og nokkrum mínútum síðar heyrðust tveir skothvellir til viðbótar. Þá var George Avanceña, vinur frænda hans, sem hafði falið sig í bakherbergi, skotinn.

Dante Novicio, lögreglustjóri í Navotas, segir þá Maderal og Avanceña hafa verið skotna með mínútu millibili og að frásagnir um annað séu til að varpa rýrð á rannsóknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert