Vladimir Pútín Rússlandsforseti er stærsta ógnin við öryggi í heiminum, jafnvel stærri en Ríki íslam. Þetta segir öldungadeildarþingmaðurinn John McCain. Í viðtali við ABC í Ástralíu sagðist McCain að Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði sig taugaóstyrkan og lýsti yfir áhyggjum vegna fregna þess efnis að tengdasonur Trump og ráðgjafi hefði unnið að því að koma á leynilegum samskiptum við Rússa.
Öldungadeildarþingmaðurinn sagði að á sama tíma og hryðjuverkasamtökin Ríki íslam væru fær um að fremja voðaverk og hann hefði áhyggjur af þróun trúarbragða múslima, væru það Rússar sem hefðu unnið að því að grafa undir grunnstoðum lýðræðisins og hafa áhrif á úrslit bandarískra kosninga.
McCain sagðist ekki hafa séð sönnun þess að Rússum hefði tekist áætlunarverk sitt en þeir hefðu reynt og væru enn að reyna að hafa áhrif á kosningar. Þá nefndi þingmaðurinn einnig framgöngu Rússa í Úkraínu.
Hann sagði Bandaríkin ekkert hafa gert til að bregðast við og viðurkenndi, spurður um áhyggjur bandamanna af alþjóðaöryggi með Trump við stjórnvölinn, að verða taugaóstyrkur annað slagið. Hann lofaði hins vegar þjóðaröryggisteymi forsetans.
„Ég tel að oftast hlusti hann á ráðleggingar þeirra og ráðgjöf. Get ég fullyrt að hann geri það alltaf? Nei. Truflar það mig? Já, það truflar mig,“ sagði McCain.
Öldungadeildarþingmaðurinn hafnaði útskýringum stjórnarliða á tilraunum Jared Kuhner til að koma á leynilegum boðskiptum við Rússa og sagði ekkert eðlilegt við það að einstaklingur sem hefði ekki verið skipaður í embætti væri að eiga í slíkum samskiptum og það áður en kjörinn forseti hefði svarið embættiseið.
McCain sagðist telja að Rússamálin myndu fylgja Bandaríkjamönnum næstu misseri. Þá sagðist hann dæma Trump af gjörðum sínum frekar en orðum og sagði hann ekki koma illa út í samanburði við Obama. Gagnrýndi McCain forsetann fyrrverandi m.a. fyrir að segja að Sýrlandsstjórn hefði farið yfir strikið með notkun efnavopna og glatað trúverðugleika með því að gera ekkert í því.