Skammsýn stefna Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur gert Vesturlönd veikari fyrir og skaðar hagsmuni Evrópu. Þetta sagði Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, í dag. Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði í gær sagt að Evrópa gæti ekki lengur talið Bandaríkin og Bretland til áreiðanlegra bandamanna.
AFP-fréttastofan segir harkaleg orð þýskra ráðamanna vera til marks um gremju þeirra í garð Trumps. Bandaríkjaforseti var meðal þátttakenda í ráðstefnu G7-ríkja á Sikiley fyrir helgi, þar sem leiðtogar Evrópu lögðu, án árangurs, hart að honum að virða Parísarsamkomulagið.
Skömmu áður hafði Trump farið fyrir einum stærsta vopnasölusamningi bandarískra vopna, en samningurinn sem var undirritaður í Sádi-Arabíu hljómar upp á 110 milljarða dollara vopnasölu næsta áratug.
„Hver sá sem hraðar loftslagsbreytingum með því að veikja umhverfisvarnir, sem selur meiri vopn til átakasvæða og sem vill ekki nota stjórnmál til að leysa trúardeilur leggur frið í Evrópu í hættu,“ sagði Gabriel.
„Skammsýni stefnu Bandaríkjastjórnar stendur gegn hagsmunum Evrópusambandsins,“ sagði hann og kvað „Vesturlöndin vera orðin minni, eða að minnsta kosti veikari“.
Evrópubúar verði engu að síður að berjast gegn loftslagsbreytingum, fyrir fækkun vopna og trúarofstæki, því annars muni óstöðugleiki í Mið-Austurlöndum og Afríku aukast enn frekar.