Aldrei upplifað aðra eins höggbylgju

Staðfest er að allavega 80 manns hafi látist í árásinni …
Staðfest er að allavega 80 manns hafi látist í árásinni í morgun. AFP

Fyrstu viðbrögð fréttakonunnar Unu Sighvatsdóttur, upplýsingafulltrúa NATO í Kabúl í Afganistan, við gríðarlega öflugri bílsprengingu í borginni í morgun voru að telja að jarðskjálfti riði yfir. Síðan glumdi hávaðinn frá sprengjunni og segist hún þá hafa áttað sig á hvað gerðist. Yfir 80 manns létust í sprengingunni, en enn er ekki komið í ljós hver stóð á bak við ódæðið.

„Það kom rosaleg höggbylgja, ég hef aldrei upplifað svona áður, það nötraði allt hérna,“ segir Una. „Hélt fyrst að þetta væri jarðskjálfti, en svo kom þessi svaðalegi hvellur og þá áttaði maður sig á því sem hafði gerst.“ Hún segir að áður hafi jarðskjálftar riðið yfir á svæðinu og því hafi slíkt komið fyrst í hugann.

Una Sighvatsdóttir með börnum í Herat fangelsinu, sem stærsta kvennafangelsi …
Una Sighvatsdóttir með börnum í Herat fangelsinu, sem stærsta kvennafangelsi Afganistan. Ljósmynd/Kay Nissen

Fyrr í mánuðinum varð önnur sprengja rétt fyrir utan græna svæðið, en það er vaktaðasta svæði borgarinnar þar sem herdeildir NATO eru staðsettar og fjöldi sendiráða. Hún segir að mikill munur hafi verið á þessum tveimur sprengingum hvað kraft varðar.

Í dag er hún búin að heyra í vinum í sendiráðunum í kring og segir hún að rúður hafi sprungið í nokkrum sendiráðum, meðal annars því þýska og ítalska. Hún segir að í kjölfar sprengingarinnar gæti verið að hert verði enn frekar á öryggismálum, sem nú þegar séu mjög stíf.

Sprengjan sprakk rétt fyrir utan svokallað græna svæði, en það …
Sprengjan sprakk rétt fyrir utan svokallað græna svæði, en það er diplómatasvæði borgarinnar þar sem sendiráð eru staðsett og herdeildir NATO. AFP

Samkvæmt nýjustu fréttum eru allavega 80 manns látnir eftir sprenginguna og 350 slasaðir. Samkvæmt fréttastofu BBC lést ökumaður bifreiðarinnar og þá er staðfest að fjórir fréttamenn hafi látist. Þá lést einn starfsmaður þýska sendiráðsins, sem var hvað næst sprengingunni og eru nokkrir aðrir starfsmenn þess og annarra sendiráða særðir.Flestir hinna látnu eru aftur á móti almennir borgarar, en sprengjan sprakk um 8:20 um morguninn að staðartíma á hápunkti morgunumferðarinnar að sögn Unu.

Flestir þeirra sem létust og særðust í sprengingunni voru almennir …
Flestir þeirra sem létust og særðust í sprengingunni voru almennir borgarar. AFP
Una Sighvatsdóttir við borgarvirkið í Herat í Afganistan.
Una Sighvatsdóttir við borgarvirkið í Herat í Afganistan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert