Hillary Clinton, sem bauð sig fram til forseta fyrir hönd Demókrataflokksins, segir falskar fréttir og gabb á Faceobook hafa átt sinn þátt í því að hún tapaði fyrir Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum í nóvember í fyrra.
Clinton sagði fyrr í þessum mánuði að afskipti rússneskra tölvuþrjóta og James Comey, þáverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, hefðu hjálpað til við að snúa kosningunum Trump í vil.
Clinton var meðal þátttakenda á Code-tækniráðstefnunni í Los Angeles í dag og nefndi hún þá Facebook og sagði dreifingu falskra frétta á samfélagsmiðlum hafa haft áhrif á þær upplýsingar sem fólk reiddi sig á.
„Hin hliðin var notkun efnis sem var bara einfaldlega rangt og sem sett var fram á mjög persónulegan máta,“ sagði Clinton í viðtali sem tekið var við hana sviði ráðstefnunnar
Reuters segir ekki hafa náðst samband við neinn af forsvarsmönnum Facebook vegna málsins, en Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagði eftir forsetakosningarnar í nóvember að það væri „bilað“ að halda því fram að falskar fréttir á samfélagsmiðlinum hefðu haft áhrif á kosningarnar með einhverjum hætti.
Stuttu síðar var þó greint frá því að Facebook ætlaði að taka upp nýjar aðferðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu falskra frétta og að unnið yrði með vefsíðum á borð við Snopes og ABC-fréttastofuna við staðfestingu frétta.