Rokkhátíðin, Rock am Ring, sem haldin er í Nürburg í Þýskalandi hefur verið stöðvuð vegna hugsanlegrar hryðjuverkaógnar. Verið er að rýma hátíðarsvæðið og hafa tónleikagestir verið beðnir um að yfirgefa svæðið á yfirvegaðan hátt til að koma í veg fyrir að öngþveiti skapist. AFP fréttastofan greinir frá.
Búst er við að um 85 þúsund manns sæki hátíðina sem átti að standa yfir í þrjá daga.
Skipuleggjendur hátíðarinnar segja að lögreglan hafi krafist þess að hátíðin yrði stöðvuð og svæðið rýmt. Þeir segjast aðstoða lögregluna eftir fremsta megni en vonast til að hátíðin geti haldið áfram á morgun.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að ákveðin gögn hafi bent til yfirvofandi hættu og að ekki hefði verið hægt að útiloka hryðjuverkaógn.
„Öryggi tónleikagesta er forgangsatriði hjá okkur og við verðum að reyna að forða þeim frá mögulegri hætti. Þess vegna var tekin ákvörðun um að stöðva hátíðina í dag,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Ekki eru nema tæpar tvær vikur síðan 22 léstust og yfir 100 særðust í hryðjuaveraárás sem var framin á tónleikum Ariana Grande í Manchester. Ákveðið var að auka öryggisgæslu á Rock am Ring eftir árásina í Manchester og um 1200 manns hafa sinnt þar gæslu.
They've interrupted Rock am Ring Festival due to terror threat and this is the punters' reaction. Amazing. pic.twitter.com/YgK06yPYTb
— Dani (@dani_queues) June 2, 2017
Liam Gallagher via Instagram Stories. #LiamGallagher #RockamRing #rar17 pic.twitter.com/fzXN0kf4Va
— oasis world (@myoasisworld) June 2, 2017