Framfylgja samkomulaginu í trássi við Trump

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, funda …
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, funda með Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York. AFP

Bandaríkin geta staðið við skuldbindingar sínar um að vinna gegn loftslagsbreytingum, þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi dregið Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Þetta hefur BBC eftir Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York.

Fullyrti Bloomberg að þetta væri hægt „í gegnum samvinnu borga, ríkja og fyrirtækja,“ og að Bandaríkjamenn myndu ekki láta ráðamenn í Washington hindra sig í þessu.

Bloomberg er sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum borga og loftslagsbreytinga.

Sú ákvörðun Trump að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, sem hann sagði kosta Bandaríkjamenn störf, hefur verið fordæmd víða um heim frá því að Trump tilkynnti þetta á fimmtudagskvöld.

Kína, Evrópusambandið og Indland, sem ásamt Bandaríkjunum eru þau fjögur svæði sem bera ábyrgð á hve mestri losun koltvísírings, ítrekuðu skuldbindingar sínar gagnvart samkomulaginu.

Veðurstofnun Sameinuðu þjóðanna (WMO) segir að í versta falli kunni úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu að leiða til þess að hitastig jarðar hækki um 0,3 gráður til viðbótar fyrir lok þessarar aldar.

„Bandaríkjamenn þurfa ekki Washington til að mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins og Bandaríkjamenn munu ekki láta Washington standa í vegi fyrir að þeir uppfylli þær,“ sagði Bloomberg eftir fund sem hann átti með Emmanuel Macron, nýkjörnum forseta Frakklands.

„Ég vil að heimurinn viti að Bandaríkin munu mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins og að þau munu gera það í gegnum samstarf borga, ríkja og fyrirtækja,“ bætti hann við.

„Við erum þegar komin hálfa leið og getum flýtt ferlinu enn frekar án nokkurs stuðnings frá Washington.“

Macron ítrekaði við sama tækifæri þá skoðun sína að Parísarsamkomulagið væri „óbreytanlegt“ og að því yrði framfylgt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka