Natalie og Ben voru að koma að innganginum að neðanjarðarlestarstöðinni á Borough High Street þegar þau sáu fullt af fólki koma hlaupandi. Síðan urðu þau vitni að því þegar maður var stunginn.
„Ég sá rauðklæddan mann með hníf með stóru blaði, sem ég giska á að hafi verið 10 tommu langur (25 sentímetrar). Hann var að stinga mann...hann stakk hann þrisvar sinnum, frekar rólega,“ sagði Ben við BBC.
„Það leit út fyrir að maðurinn hafi reynt að ganga á milli einhvers. Hann gat hins vegar ekki gert mikið þar sem hann var stunginn og síðan hrundi hann til jarðar,“ sagði Ben og bætti við að árásarmaðurinn og annar maður hefði síðan rölt í burtu.
„Borði var kastað, flösku var kastað í átt að manninum með hnífinn. Síðan heyrðum við byssuskot og hlupum burt.“
Öryggisvörður sem starfar á Borough Market svæðinu sagði í samtali við BBC að hann hefði séð fjóra einstaklinga stungna af þremur mönnum.
Maðurinn var við störf á bar þegar hann heyrði af árásum á öðrum bar rétt hjá. Hann hafi farið þangað og séð fólk hlaupa burt öskrandi.
Öryggisvörðurinn bætti því við að hann hefði séð þrjá árásarmenn, einn þeirra með hníf með löngu blaði. Þeir hafi stungið fólk, þar á meðal rétt rúmlega tvítuga stúlku.
Lögreglan í London hvetur fólk til að halda ró sinni en vera vel á varðbergi og fylgja fyrirmælum en lögregla hefur staðfest að hún sinni nú atvikum sem áttu sér stað við London-brúnna, við Borough Market og í Vauxhall. Fólk sem statt er á þessum svæðum skal samkvæmt fyrirmælum lögreglu „hlaupa í öruggt skjól, fela sig og setja síma sinn á hljóðlausa stillingu og slökkva á titringi og láta lögreglu vita í síma 999 þegar það er öruggt.“