Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni í London í gærkvöldi, sem kostaði sjö manns lífið. Aamaq fréttaveita Ríkis íslams segir „aðskilnaðarhóp vígamanna frá Ríki íslams hafa framkvæmt árásirnar í London í gær.“
Þrír menn óku sendibíl inn í hóp vegfarenda við London Bridge og héldu svo áfram fótgangandi að Borough markaðinum og stungu fjölda fólks með hnífi á leið sinni. 48 manns særðust í árásinni, þar af 21 alvarlega. Átta vopnaðir lögreglumenn skutu árásarmennina til bana nokkrum mínútum eftir að fyrsta neyðarkallið barst.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag „illa“ hugmyndafræði islamista liggja að baki árásinni.
Breska lögreglan hefur handtekið 12 manns í tengslum við rannsókn sína á árásinni og voru 11 þeirra handteknir við húsleit í sama húsi í Barking í austurhluta London í dag. Hefur BBC eftir lögreglunni nú í kvöld að sjö konur á aldrinum 19-60 ára séu í hópi hinna handteknu og fimm karlar á aldrinum 27 – 55 ára, en einum mannanna hafi nú verið sleppt úr haldi án ákæru. Hinum ellefu er haldið á grundvelli hryðjuverkalaganna.