Rússar reyndu að brjótast inn í kosningakerfið

Samkvæmt skýrslu NSA var mánuðum saman reynt að komast yfir …
Samkvæmt skýrslu NSA var mánuðum saman reynt að komast yfir upplýsingar um hug- og vélbúnað bandaríska kosningakerfisins. AFP

Leyniþjónusta rússneska hersins reyndi mánuðum saman að brjótast inn í bandaríska kosningakerfið. Þetta kemur fram í frétt á vefnum The Intercept þar sem vísað er í skýrslur frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA).

Í skýrslunni er lýst aðgerð sem tengist náið leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) sem beindist gegn bandarískum einkafyrirtækjum og fólst hún í því að reyna að komast yfir upplýsingar um hug- og vélbúnað kjörkerfisins. Hófust aðgerðirnar mörgum mánuðum fyrir kosningarnar og stóðu yfir allt þar til nokkrum dögum áður en forsetakosningar fóru fram í Bandaríkjunum 8. nóvember á síðasta ári.

The Intercept-vefurinn leggur áherslu á þjóðaröryggismál og segir í umfjöllun þeirra að ekki komi fram í skýrslu NSA hvort tölvuþrjótar hafi haft áhrif á kosningarnar eða hvort þeim hafi tekist ætlunarverk sitt.

Skýtur stoðum undir ásakanir gegn Pútín

Yfirmenn bandarísku leyniþjónustunnar hafa ítrekað sagt tölvuþrjóta hafa ekkert haft með úrslit forsetakosninganna að gera. Skýrslan þykir hins vegar, að sögn vefjarins, skjóta stoðum undir þær ásakanir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti tengist netárásunum og að þeim hafi verið ætlað að hjálpa Trump að sigra kosningarnar.

„Leyniþjónusta rússneska hersins [...] stóð fyrir netnjósnaaðgerð gegn nefndu bandarísku fyrirtæki í ágúst 2016, með það að markmiði að ná upplýsingum um hugbúnað og vélbúnaðarlausnir tengdu kosningunum,“ segir í skýrslunni.  

„Búast megi við að gerendurnir hafi notað upplýsingarnar úr þeirri aðgerð til að [...] koma á kjósendaskráðri netveiðaherferð (e. spear-phishing campaign) sem beindist gegn bandarískum ríkisstofnunum.

Skýrslan er sögð hafa verið birt nokkrum dögum eftir að Pútín neitaði alfarið að rússneska ríkið hefði á nokkurn hátt reynt að hafa áhrif á bandarísku kosningarnar.

Sagðist Pútín þó ekki útiloka að rússneskir tölvuþrjótar, ótengdir stjórnvöldum, hafi staðið fyrir árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka