Fjölskylda Söru Zelenak, ástralskrar 21 árs konu, er harmi slegin eftir að hún lést í árásinni í Lundúnum á laugardag. Lík áttunda fórnarlambsins, Xavier Thomas, fannst í Thames-ánni í gærkvöldi, samkvæmt umfjöllun BBC.
Lögregla náði líkinu úr ánni um klukkan 19.44 í gærkvöldi. Hafa nánustu ættingjar hans verið látnir vita, en enn á eftir að bera formlega kennsl á líkið.
Spænsk stjórnvöld hafa þá staðfest nú síðdegis að Ignacio Echeverria, sem reyndi að verja konu fyrir árásum mannanna, hafi látist af sárum sínum.
Zelenak, sem var frá Brisbane í Ástralíu, starfaði í Lundúnum sem au pair. Hún sást síðast á lífi ásamt vinum sínum á hlaupum undan árásarmönnunum. Urðu þau viðskila á flóttanum.
Fréttin hefur verið uppfærð og leiðrétt. Í fyrstu var ranglega fullyrt að Zelenak hefði fundist látin í ánni. Svo var ekki.