„Það bendir allt til þess að Íhaldsflokkurinn nái þingmeirihluta en á sama tíma er heilmikil breidd í skoðanakönnunum,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurður um þingkosningarnar sem fram fara í Bretlandi á morgun.
Það sem meðal annars hefur einkennt kosningabaráttuna er verulegt ósamræmi á milli skoðanakannana. Þær eiga þó sameiginlegt að sýna að dregið hafi saman með tveimur stærstu flokkunum, Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum, að undanförnu.
„Flestar skoðanakannanir sýna Íhaldsflokkinn með í kringum 7% forskot á Verkamannaflokkinn að meðaltali og það þýðir að flokkurinn væri að fá á bilinu 10 til 20-30 þingsæta meirihluta. En hann gæti fengið mun fleiri þingsæti vegna kosningakerfisins hérna og eins er sá möguleiki alveg fyrir hendi að hann nái ekki meirihluta,“ segir Baldur sem er búsettur í London, höfuðborg Bretlands, um þessar mundir vegna rannsóknarleyfis.
Ýmsir óvissuþættir séu fyrir hendi núna sem ekki hafi verið til staðar síðast þegar kosið var 2015.
„Fyrir það fyrsta ákvað breski sjálfstæðisflokkurinn að bjóða ekki fram í rúmlega eitt hundrað kjördæmum í Wales og á Englandi. Hvert það fylgi sem flokkurinn fékk 2015 fer núna vitum við ekki. Ef það fer að mestu yfir til Íhaldsflokksins þá er hann á grænni grein hvað fylgi varðar á morgun. Ef það skiptist og fylgið fer að einhverju leyti yfir á Verkamannaflokkinn þá gæti niðurstaðan orðið önnur,“ segir Baldur.
Í annan stað eigi það sama við um Græningja sem hafi að sama skapi lýst því yfir að þeir ætli ekki að bjóða fram í ákveðnum kjördæmum.
„Græningjar eru heldur ekki að bjóða fram í kjördæmum þar sem Verkamannaflokkurinn eða Frjálslyndir demókratar eru að keppa við Íhaldsflokkinn. Ef fylgi Græningja fer yfir á þessa tvo flokka í þessum kjördæmum þá styrkir það stöðu þeirra. Síðan í þriðja lagi hafa hryðjuverkaárásirnar í London og Manchester litað mjög kosningabaráttuna,“ segir hann.
Umræðan um þær hafi ekki verið að koma vel út fyrir Íhaldsflokkinn þrátt fyrir að slíkir atburðir hafi oft styrkt stjórnarflokka í sessi sem hafi þá lagt áherslu á mikilvægi samstöðu.
„Þetta er hins vegar ekki að gerast aðallega vegna þess að forsætisráðherrann Theresa May, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni fyrir að hafa skorið niður fjármagn til löggæslumála þegar hún var innanríkisráðherra áður en hún tók við forsætisráðuneytinu. Síðan í fjórða lagi náði Verkamannaflokkurinn því að gera heilbrigðis- og menntamál að einu af meginkosningamálunum. Fyrir vikið var ekki eins mikil áhersla á útgönguna úr Evrópusambandinu sem May ætlaði að leggja aðaláherslu á,“ segir Baldur.
Verkamannaflokkurinn hafi með stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar tekið upp að nýju hefðbundin stefnumál flokksins um að aðgangur að heilbrigðis- og menntakerfinu eigi að vera gjaldfrjáls. Þetta hafi höfðað mjög til almennings. Fólk hafi fundið það í Bretlandi á undanförnum árum að heilbrigðiskerfið hafi átt undir högg að sækja á síðustu árum vegna fjárskorts. Það hafi í raun verið ákveðið vanmat af hálfu Íhaldsflokksins að ætla að fara í kosningabaráttuna og ætla nánast að gera alfarið út á útgönguna úr Evrópusambandinu.
Þannig stæðu heilbrigðis- og menntamálin nær daglegu lífi fólks en útgangan úr Evrópusambandinu. Á sama tíma hafi Íhaldsflokkurinn meðal annars kynnt áform um að nýta eignir aldraðs fólks til þess að standa undir umönnunarkostnaði þeirra sem hafi fallið í slæman jarðveg. May hafi þá dregið þá stefnu til baka en það þyki heldur ekki gott í Bretlandi að þurfa að gera slíkt. Ekki hjálpi þegar lagt er af stað í kosningabaráttu með áherslu á sterka og stöðuga forystu. Íhaldsflokkurinn hafi þannig lent í talsverðum ógöngum.
Helsta afrek May sé hins vegar að hafa tekist að sameina Íhaldsflokkinn um þá stefnu að ganga úr Evrópusambandinu. Ekki síst í ljósi þess að talið hafi verið að flokkurinn gæti klofnað vegna málsins í kjölfar þjóðaratkvæðisins á síðasta ári þar sem meirihlutinn samþykkti að ganga úr sambandinu. Á sama tíma sé merkilegt að Verkamannaflokkurinn hafi náð þeim árangri sem skoðanakannanir benda til í ljósi þess að forysta hans njóti langt því frá afgerandi stuðnings innan flokksins og sé í raun fyrir mikið mjög veik.
Takist Íhaldsflokknum ekki að halda meirihluta í neðri deild breska þingsins á morgun segir Baldur aðspurður að næsti kostur væri minnihlutastjórn flokksins ef hann gæti brúað bilið með samstarfi við þingmenn frá Norður-Írlandi sem margir séu íhaldssamir. Tækist það ekki færi keflið til Verkamannaflokksins en líklega þyrfti hann ekki aðeins að semja við Frjálslynda demókrata og Skoska þjóðarflokkinn um samstarf heldur einnig hugsanlega flokka í Wales og á Norður-Írlandi. Slík stjórn yrði veik. Ekki síst vegna stöðunnar innan Verkamannaflokksins.