Fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, James Comey, tjáði Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að hann vildi ekki vera einn með Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC en Trump lét Comey taka pokann sinn fyrr á árinu en talið er að ástæða sé rannsókn FBI á meintum tengslum náinna samstarfsmanna forsetans við rússneska embættismenn.
Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að ummæli Comeys hafi fallið daginn eftir að Trump bað hann um að hætta rannsókn á tengslum Michaels Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, við ráðamenn í Rússlandi. Comey er sagður hafa talið að Sessions bæri skylda til þess að verja FBI fyrir óeðlilegum afskiptum af hálfu forsetaskrifstofunnar. Vitnað er í ónafngreinda embættismenn sem heimildarmenn fyrir þessu.
Til stendur að Comey komi á morgun fyrir rannsóknarnefnd á vegum Öldungadeildar Bandaríkjaþings sem hefur málið til skoðunar. Ennfremur kemur fram í fréttinni að Sessions hafi boðist til þess að segja af sér embætti en fullyrt er í bandarískum fjölmiðlum að vaxandi spennu gæti í samskiptum hans við Trump eftir að Sessions kom því til leiðar að rannsóknin beindist ekki að honum sjálfum. Trump hafi hins vegar neitað að taka við afsögninni.
Talsverð eftirvænting er vegna vitnisburðar Comeys fyrir þingnefndinni á morgun. Ekki síst þar sem talið er að hann verði spurður út í persónulegar samræður hans við Trump varðandi rannsóknina á hinum meintu tengslum náinna samstarfsmanna hans við rússneska embættismenn. Ekki síst í aðdraganda fosetakosninganna á síðasta ári.
Önnur frétt hefur einnig vakið athygli en fullyrt er í bandaríska dagblaðinu Washington Post að Trump hafi beðið Dan Coats, yfirmann leyniþjónustumála í ríkisstjórn hans, að reyna að fá FBI til þess að hætta rannsókn á tengslum Flynns við ráðamenn í Rússlandi. Coats mun sjálfur koma fyrir nefndina síðar í dag og svara spurningum nefndarmanna.