Búist er við tíststormi frá Trump í dag

Þeir þrír einstaklingar sem málið snýst um. Trump, Comey og …
Þeir þrír einstaklingar sem málið snýst um. Trump, Comey og Flynn. AFP

James Comey, sem Donald Trump Banda­ríkja­for­seti rak úr starfi for­stjóra al­rík­is­lög­regl­unn­ar FBI, mun mæta fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings klukkan 14 í dag. Þar kemur hann til með að lýsa samskiptum þeirra tveggja áður en Comey var látinn taka pokann sinn þann 9. maí síðastliðinn.

Fundinum verður lýst í beinni í útsendingu í fjölmiðlum vestanhafs og má búast við að Trump verði duglegur að tjá sig á Twitter meðan á honum stendur, líkt og hann er vanur. Fram kemur í frétt BBC að Washington bíði eftir tíststorminum.

Upplifði óþægilegan þrýsting

Í vitnisburði Comey, sem lekið var á netið í gær, kemur fram að hann hafi skilið orð Trump þannig að hann krefðist þess að rannsókn á tengslum Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, við ráðamenn í Rússlandi, yrði hætt.

Comey segir jafnframt að forsetinn hafi hafi krafist hollustu af honum, hann þyrfti hollustu og byggist við henni, af hálfu forstjóra FBI. Það samtal átti sér stað í tveggja manna kvöldverðarboði í Hvíta húsinu þann 14. febrúar síðastliðinn. Í kjölfarið ritaði Comey minnisblað um samskipti þeirra, sem honum þóttu mjög óþægileg, að kemur fram í vitnisburðinum.

Vitnisburður Comey fyrir nefndinni er hluti af stærri rannsókn á vegum þings og dómsmálaráðuneytis á þeim möguleika að Rússar hafi haft einhver áhrif á niðurstöðu forsetakosninganna í nóvember síðastliðnum, með því að hakka sig inn í kosningakerfið. Að Rússar hafi þannig stuðlað að sigri Trump á frambjóðanda demókrata, Hillary Clinton. Þá er einnig rannsakað hvort opinberir starfsmenn í kosningabaráttu Trump hafi tekið þátt í slíku samsæri.

Hvíta húsið verst með kjafti og klóm

Svo virðist sem Hvíta húsið ætli sér að verjast vitnisburði Comey með tvennum hætti, að fram kemur í frétt BBC um málið.

Í staðinn fyrir að greina sérstaklega smáatriði í samskiptum forsetans og fyrrverandi forstjórans og hrekja þau, hefur lögmaður Trump bent á að þessi opinberum Comey veiti forsetanum einfaldlega upprein æru, enda megi skilja það á samtölunum að forsetinn sjálfur hafi aldrei verið til skoðunar vegna óeðlilegra tengsla við rússneska ráðamenn.

Hin taktíkin er að mála Comey upp sem athyglissjúkan einstakling sem uni sér vel í kastljósi fjölmiðlanna, og sé í raun uppteknari að athyglinni en að þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Búast má við að vitnisburður Comey komi til með að varpa skugga á forsetann í einhvern tíma og því er líklegt að þessar gagnárásir af hálfu Hvíta hússins séu aðeins byrjunin á því sem koma skal í að reyna að sverta mannorð comey og upphefja Trump á hans kostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert