Bretar ganga að kjörborðinu í dag og velja þá sem skipa munu neðri deild breska þingsins fram að næstu kosningum sem fara að öllu óbreyttu fram árið 2022. Fjöldi þingsæta í neðri deildinni eru 650 og til þess að mynda ríkisstjórn með þingmeirihluta þarf því að lágmarki 326 þingmenn. Kosningakerfi Bretlands byggist upp á einmenningskjördæmum og fyrir vikið eru kjördæmin í landinu jafnmörg og þingsætin eða 650.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lagði fram tillögu í neðri deild breska þingsins um miðjan apríl um að boðað yrði til þingkosninga fyrr en til stóð. Þingkosningar fóru síðast fram árið 2015 þar sem Íhaldsflokkur hennar, sem þá var undir forystu Davids Cameron, náði naumum meirihluta. Þegar May boðaði til kosninganna var meirihluti flokkins einungis 17 þingmenn. Kjörtímabilið í Bretlandi er allajafna fimm ár.
Tilgangurinn með því að flýta kosningunum var bæði sá að styrkja þingmeirihluta Íhaldsflokksins, einkum vegna fyrirhugaðra viðræðna við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands úr því, og fá lengri tíma til þess að leiða viðræðurnar til lykta. Þannig væri ríkisstjórn hennar, haldi Íhaldsflokkurinn meirihluta í kosningunum, ekki að heyja kosningabaráttu 2019-2020 þegar gert er ráð fyrir að viðræðunum kunni að ljúka.
Fyrstu vísbendingar um það hvernig þingkosningarnar kunna að fara koma um það leyti er kjörstöðum lokar klukkan 21:00 að íslenskum tíma. Þá verður birt útgönguspá BBC, ITV og Sky. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að útgönguspár síðustu tveggja þingkosninga í Bretlandi hafi verið mjög nálægt niðurstöðum kosninganna en útgönguspár eru byggðar á svörum fólks þegar það yfirgefur kjörstaði.
Búist er við að niðurstöður úr fyrstu kjördæmunum liggi fyrir um klukkan 23:00 að íslenskum tíma. Fyrstu úrslitin úr kjördæmi þar sem óvíst er um niðurstöðuna liggja líklega fyrir um miðnætti en þar er um að ræða kjördæmið Nuneaton sem Íhaldsflokkurinn vann árið 2015. Eftir það má reikna með að niðurstöður úr kjördæmum komi á færibandi og að úrslitin liggi fyrir í flestum kjördæmum fyrir klukkan 5:00 í fyrramálið.
Einhver úrslit munu hins vegar að líkindum ekki liggja fyrir fyrr en á hádegi á morgun samkvæmt BBC en meginniðurstaða kosninganna muni þó liggja fyrir mun fyrr en það.