„Ég elska þig. Dreptu þig“

Michelle Carter og Conrad Roy.
Michelle Carter og Conrad Roy. Skjáskot af The Telegraph

Dómari hefur neitað að vísa máli frá gegn konu sem sökuð er um að hafa hvatt kærasta sinn til að fremja sjálfsmorð.

Rétt­ar­höld­ yfir Michelle Carter, 20 ára, hóf­ust fyrr í vik­unni, en hún er sökuð um að hafa sent kær­asta sín­um tugi smá­skila­boða þar sem hún hvatti hann til að taka eigið líf. Lík Conrad Roy fannst í bif­reið hans 13. júlí fyr­ir þrem­ur árum. Hann lést vega kol­sýr­ingseitr­un­ar en hann hafði lengi glímt við þung­lyndi.

Lögmaður Carter, Joseph Cataldo, sagði að aðgerðir hennar hefðu verið kæruleysislegar en hún hefði hins vegar ekki gert neitt saknæmt.

Carter er sökuð um manndráp af gáleysi og á yfir höfði sér 20 ára fangelsi verði hún fundin sek um að hafa hvatt Roy til að taka eigið líf.

„Ég elska þig. Dreptu þig,“ stóð í einum skilaboðum sem Carter sendi Roy, samkvæmt gögnum sem saksóknari lagði fram við réttarhöldin.

Cataldo sagði að ekki væri hægt að sanna að Carter hefði orðið valdur að dauða Roy. 

Sak­sókn­ar­ar í mál­inu segja Cart­er hafa hvatt Roy til að taka sitt eigið líf. Hann hafi setið í bíl sín­um og verið á báðum átt­um með hvort hann ætti að ganga alla leið. Hann hafi verið hrædd­ur og sent Cart­er skila­boð, en henn­ar svar hafi verið: „Farðu aft­ur inn í bíl­inn.“ Það hafi hann gert sem endaði með fyrr­greind­um af­leiðing­um. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert