Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera 100% tilbúinn til að ræða eiðsvarinn um samtöl sem hann átti við James Comey, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI.
Comey kom fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, og lýsti samskiptum þeirra tveggja í aðdraganda þess að sá fyrrnefndi rak þann síðarnefnda.
„James Comey staðfesti margt af því sem ég hef sagt. Sumt sem hann sagði var ekki satt,“ sagði Trump í dag.
Meðal þess sem kom fram í vitnisburði Comey í gær var að Trump hefði beðið hann að falla frá rannsókn á Micheal Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, og hugsanlegum tengslum hans við rússneska ráðamenn.
Þá sagði Comey jafnframt að forsetinn hefði krafist hollustu af honum. Þetta þótti fyrrverandi FBI forstjóranum óþægilegt, en Trump hefur neitað því að hafa látið þessi orð falla.