Trump rýfur þögnina á Twitter

Donald Trump lét ekkert í sér heyra á Twitter í …
Donald Trump lét ekkert í sér heyra á Twitter í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lét ekki í sér heyra á Twitter í gær þegar James Comey, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, kom fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, og lýsti samskiptum þeirra tveggja í aðdraganda þess að sá fyrrnefndi rak þann síðarnefnda.

Nú hefur þögnin hins vegar verið rofin með einu tísti. „Þrátt fyrir svo margar rangar staðhæfingar og lygar, fæ ég algjöra og fullkomna upprein æru... og VÁ, Comey lak gögnunum sjálfur!“ Segir í nýju tísti forsetans, lauslega þýddu yfir á íslensku. Vísar hann þar væntanlega til þess að Comey minntist aldrei á að forsetinn sjálfur hefði verið til rannsóknar vegna óeðlilegra tengsla við rússneska ráðamenn.

Meðal þess sem kom fram í vitnisburði Comey í gær var að Trump hefði beðið hann að falla frá rannsókn á Micheal Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, og hugsanlegum tengslum hans við rússneska ráðamenn. Þá sagði Comey jafnframt að forsetinn hefði krafist hollustu af honum. Þetta þótti fyrrverandi FBI forstjóranum óþægilegt, en Trump hefur neitað því að hafa látið þessi orð falla.

Comey viðurkenndi það einnig fyrir rannsóknarnefndinni að hann hefði sjálfur lekið minnispunktum af fundum sínum með forsetanum. Hann hefði látið vin sinn, lagaprófessor við Harvard háskóla, hafa punktana og beðið hann um að deila þeim með blaðamanni New York Times. Vonaðist Comey til að þetta yrði til þess að skipaður yrði rannsakandi til að rannsaka tengsl starfsmanna Trump í kosningabaráttunni á síðasta ári, við ráðamenn í Rússlandi. Ásamt hugsanlegum afskiptum Rússa af baráttunni.

Daginn eftir að grein um málið birtist í New York Times var Robert Mueller, fyrrverandi yfirmaður FBI, skipaður til að hafa yfirumsjón með rannsókninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert