Íbúar Púertó Ríkó kusu í dag með yfirgnæfandi meirihluta að eyjan verði 51. ríki Bandaríkjanna. Dræm kjörsókn gæti þó varpað skugga á atkvæðagreiðsluna, sem er ekki bindandi.
Samkvæmt fyrstu tölum styðja 97% íbúa það að Púertó Ríkó, sem er sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna, verði ríki. 23% kjörsókn þykir þó sýna fram á árangur andstæðinganna sem hvatt höfðu fólk til að hunsa atkvæðagreiðsluna.
Frá þessu greinir Wall Street Journal.
Stjórnvöld eyjunnar hafa átt í miklum fjárhagsvandræðum og ákváðu í maí á síðasta ári að greiða ekki 422 milljóna dala afborgun sem þá var á gjalddaga.
Ríkisstjórinn Alejandro García Padilla tilkynnti þá í beinni sjónvarpsútsendingu að þetta væri gert samkvæmt hans fyrirskipan og að ákvörðunin hefði verið mjög erfið. Þungur skuldabaggi hefur legið á landinu á liðnum árum og skuldaði ríkissjóður Púertó Ríkó um 70 milljarða dala. Til að setja upphæðina í samhengi þá er landsframleiðsla Púertó Ríkó rösklega 100 milljarðar dala og íbúafjöldinn ríflega 3,5 milljónir.
Stjórnvöld þar í landi hafa átt í viðræðum við bandarísk yfirvöld um lausn á skuldavandanum. Ekkert samkomulag hefur náðst.